RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Svo ég sletti nú

Dagskrárgerðarmenn, stjórnmálamenn og aðrir sem láta gamminn geisa blaðlaust í fjölmiðlum festast stundum í ákveðnu orðalagi. Hlustendur geta látið síendurtekin orð og orðasambönd fara í taugarnar á sér og það veldur því að þeir hætta að heyra hvað er sagt og heyra einungis hvernig það er sagt.

Þáttarstjórnendur skammaðir

Hlustandi ræddi, í bréfi til málfarsráðunautar, málfar þáttarstjórnenda í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann sagði meðal annars: „Svo er það tískuorðið heldur betur. Ég nennti ekki að spila aftur Morgunútvarpið á Rás 2 í gær til að telja en þessi meiningarlausa tugga kom áreiðanlega fyrir svo tugum skipti. Jónas Jónasson sagði einhvern tíma að þögnin væri vanmetinn þáttur í útvarpi. Svona innskot gera ekkert nema sýna að mælandinn sé ennþá á staðnum.“

Skemmst er frá því að segja að þáttarstjórnendur ætla að leggja sig alla fram við að fækka „heldur betur“ tilvikunum heldur betur.

„Svo ég sletti nú“

Tveir viðmælendur, báðir borgarfulltrúar, sem voru viðmælendur í Síðdegisútvarpinu mánudaginn 14. september, kepptust við að sletta. Þeir voru samt mjög meðvitaðir um að þeir voru að tala í Ríkisútvarpið og hnýttu þess vegna alltaf aftan við „svo ég sletti nú“. Annar fulltrúinn var þó mun iðnari við sletturnar en hinn. Samt kunni hann alveg íslensku orðin og notaði þau og það var kannski það sorglega við þetta,  að sletturnar voru alveg óþarfar. Hann sagði t.d. eitthvað á þessa leið: „Við þurfum að nýta þá resúrsa, svo ég sletti nú ennþá meira, það er að segja þær bjargir sem við höfum…“

Þarna höfum við sem sagt fínasta orð, sem þýðingu á resource, sem er orðið bjargir. Borgarfulltrúinn kunni það orð og hefði verið í lófa lagið að notað það í stað þess að leyfa slettunni að sleppa út. Umburðarlyndi er dyggð þegar kemur að slettum enda er ólíklegt að þær eigi eftir að gera út af við íslenskt mál. En þær eru oftast frekar hvimleiðar og í langflestum tilfellum alveg óþarfar. Að ekki sé talað um þegar til eru falleg, góð, lýsandi og notadrjúg orð í þeirra stað, eins og til dæmis bjargir. 

Hinn borgarfulltrúinn greip nú orðið og sagði, eftir að hafa talað stutta stund eitthvað á þessa leið: „En den tid, den sorg – svo ég sletti nú líka, en ég sletti á dönsku“.

Dönskuslettur þykja mörgum betri en enskuslettur og ég hef m.a.s. sérstaklega verið beðin um að hlífa dönskuslettunum af málsögulegum ástæðum. Kannski verð ég einhvern tímann beðin að hlífa enskuslettunum, t.d. þegar Asíumálin hefja innreið sína í vestræn tungumál. Hver veit? En þá segi ég, den tid den sorg.

Að og af

Forsetningarnar að og af voru til umræðu hjá okkur síðasta vetur og vandræði margra með að nota þær rétt. Ég rakst á skemmtilegt innslag um þetta í Málvöndunarþættinum á Facebook í gær . Það má líklega rekja til umfjöllunar okkar í fyrravetur. Þar segir: „Ég vissi ekki að ég ætti í vandræðum með „að“ og „af“ fyrr en ég heyrði í útvarpi að margir ættu í vandræðum með að nota þessi orð á réttum stöðum. Eftir að ég heyrði þetta eru þessi orð alltaf að þvælast fyrir mér og ég bý til algjöra flækju í hausnum á mér. Þetta er ferlega hvimleitt. Er til einhver leið sem segir til hvenær á að nota „að“ eða „af“? Kær kveðja, ein að/af norðan“

Það urðu miklar og skemmtilegar umræður um þetta og einn maður sagði góða sögu til að sýna fram á mikilvægi þess að gera á þessu greinarmun: „Það getur oft gerbreytt merkingu setningar, hvort „af“ eða „að“ er notað. Glöggt dæmi um það er sagan af manninum sem var að lýsa peninganotkun tveggja sona sinna. Hann sagði að Jón gerði allt AÐ engu en Gunnar gerði allt AF engu. Jafnframt fylgdu alls konar leiðbeiningar og ráð um hvernig mætti finna út úr þessu.

Það er von mín að umfjöllun um málfar verði ekki til þess að rugla fólk í ríminu heldur frekar til að styrkja málnotkun þess.

16.09.2015 kl.09:06
Mynd með færslu
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Morgunútvarpið