Super Mario í New York og önnur tíðindi frá E3

18.06.2017 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: Nintendo
Tölvuleikjaráðstefnan E3 fór fram í Los Angeles í síðustu viku. Þetta er einhver stærsta ráðstefna sinnar tegundar í heiminum og á henni eru allir helstu tölvuleikir sem væntanlegir eru kynntir til leiks.

Hér eru tínd til nokkur stór tíðindi sem urðu á ráðstefnunni í ár.

Ný XBOX leikjatölva

Microsoft svipti hulunni af nýrri leikjatölvu, sem ber nafnið XBOX One X. Fyrirtækið er kokhraust sem fyrr, þrátt fyrir að hafa löngum staðið í skugga Sony, en tölvan var kynnt sem öflugasta leikjatölva nokkru sinni. Hún er væntanleg á markað í nóvember, en margir supu hveljur þegar upplýst var um verðið. Hún kemur til með að kosta 499 Bandaríkjadali, eða um 50.000 íslenskar krónur.

Metroid snýr aftur

Nintendo tilkynnti að nýr Metroid Prime leikur sé væntanlegur fyrir Nintendo Switch. Ekkert var sýnt úr sjálfum leikjunum, en örstutt kitla, þar sem einungis merki hans var sýnt, dugði til að framkalla sæluhroll meðal tölvuleikjaunnenda. Það hefur vakið athygli að Nintendo skuli hafa auglýst leikinn svo snemma í ferlinu, en ekkert hefur verið gefið upp um hvenær búast má við að hann komi út.

Ævintýraför Super Mario

Super Mario Odyssey, nýr leikur um píparann ástsæla, er væntanlegur 27. október á þessu ári fyrir Nintendo Switch. Leikurinn var hápunktur kynningar Nintendo, en í honum er hetjunni stýrt í opnum leikjaheimi, þar sem Mario heimsækir meðal annarra staða stórborg sem svipar ekki lítið til New York. Í leiknum geta spilarar fleygt hatti Marios á lifandi sem dauða hluti og með því tekið sér bólfestu í þeim, sem vakið hefur lukku hjá háðfuglum.

Shadow of the Colossus endurgerður

Shadow of the Colossus, meistaraverk Fumito Ueda sem kom út fyrir meira en áratug síðan á Playstation 2, verður endurgerður fyrir Playstation 4. Af kynningarmyndbandinu að dæma þá er um að ræða metnaðarfulla endurgerð á leiknum, ekki einfalda uppfærslu.

Bioware kom á óvart

Hlutverkaleikjarisanum Bioware fataðist flugið í síðasta leik sínum, Mass Effect Andromeda, en hann fékk víðast hvar dræmar viðtökur gagnrýnenda. Fyrirtækið virðist ekki ætla að eyða miklum tíma í að sleikja sár sín, því tilkynnt var um útgáfu nýs leiks að nafni Anthem. Hann þykir lofa góðu og vonast fyrirtækið til að það nái með honum aftur vopnum sínum.

Rykinu strokið af Beyond Good and Evil 2

Flestir höfðu gefið upp alla von um að Beyond Good and Evil 2 mundi nokkurn tímann líta dagsins ljós, en fyrst var tilkynnt um útgáfu leiksins fyrir tæpum áratug síðan. Þetta er framhald ástsæls leiks sem kom út 2003 hjá franska tölvulekjafyrirtækinu Ubisoft. Fyrirtækið kom öllum á óvart og lauk kynningu sinni á E3 í ár með því að sýna langa stiklu um hann. Því var fagnað að leikurinn skyldi heimtur úr helju, en þó skal varast að binda vonir við að hann komi út fljótlega.

Mynd með færslu
Davíð Kjartan Gestsson
vefritstjórn