Stjórnin siglir lygnan sjó

13.09.2017 - 19:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að ríkisstjórnin sigli tiltölulega lygnan sjó og búa við hagstætt efnahagsástand. Þetta eru aðstæðurnar sem eru bakgrunnur stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld og umræðna um hana.

„Helsta áhyggjuefni [stjórnarflokkanna] er kannski helst að maður hefur séð að það hefur verið dálitill pirringur milli flokkanna og meirihlutinn er nú bara 32 sæti. Það gæti hugsanlega valdið stjórninni einhverjum erfiðleikum, en ég held nú að líkurnar á því að hún lifi að minnsta kosti eitthvað áfram séu meiri heldur en minni,“ segir Ólafur.

En hvað með stöðu stjórnarandstöðunnar? „Hún er náttúrulega stjórnarandstaða og hún er mjög hefðbundin stjórnarandstaða, hún leggur megináherslu á að það sé ekki nægilega mikið gert við að auka þjónustu ríkisins, til dæmis í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og þar fram eftir götunum, það er allt saman frekar hefðbundið.“ segir Ólafur Þ. „Eins og venjulega vill stjórnin frekar vera á bremsunni en stjórnarandstaðan vill nú gjarnan spýta betur í. Heldur þú að þetta verði átakavetur? Ég er nú ekki viss um, það verður náttúrulega eins og alltaf átök um einstök mál en ég á nú frekar von á því að það verði ekki stórfelld átök en maður veit aldrei.“

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV