„Sprengja til að slíta meirihlutasamstarfinu“

12.02.2016 - 12:21
Borgarnes.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
„Það var okkar tilfinning að þetta væri sprengja eða fóður til að slíta meirihlutasamstarfinu,“ segir Guðveig Anna Eyglóardóttir, oddviti Framsóknar í Borgarbyggð.

Á sveitarstjórnarfundi í gær lögðu  Sjálfstæðismenn til að hætt yrði við umdeilda ákvörðun um að loka grunnskóladeildinni á Hvanneyri í hagræðingarskyni. Þetta var samþykkt með atkvæðum allra nema framsóknarmanna sem sátu hjá.  

Guðveig Anna Eyglóardóttir, oddviti Framsóknar, segir að trúnaðarbrestur hefði orðið í samstarfi flokkanna vegna málsins.  Þverpólitísk sátt hafi verið um skólamálin í byggðaráði og fræðslunefnd. „Okkur voru settir afarkostir um það að fara í raun á byrjunarreit í þessu máli sem var búið að vinna að í rúmt ár. Það var ekki annað til umræðu af þeirra hálfu en að hætta við málið.“

Björn Bjarki sagði í morgunfréttum að trúnaðarbresturinn væri framsóknarmegin því að á þeim bænum hafi menn verið farnir að leita til annarra flokka um mögulegt samstarf. 

„Þeir voru byrjaðir með þreifingar alla vega í gærmorgun og jafnvel fyrr, ég veit svo sem ekkert um það. Við í okkar herbúðum vildum vinna okkur í gegnum þetta en þegar þessi tíðindi berast í gær þá varð ekkert aftur snúið með það að það var ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi.“

Samfylkingin er í oddastöðu með tvo bæjarfulltrúa en sjálfstæðismenn og Framsókn hafa þrjá hvor. Vinstri hreyfingin grænt framboð er síðan með einn bæjarfulltrúa. Sjálfstæðismenn og Samfylking hófu viðræður í gær um nýjan meirihluta og hyggjast halda þeim áfram í dag. 

Flaggað er við nokkur hús á Hvanneyri í tilefni af því að ákvörðun um lokun grunnskólans var dregin til baka. Skessuhorn greinir frá. Stjórn Íbúasamtaka Hvanneyrar og nágrennis, sem barist hafa gegn lokuninni, telur áfangasigur hafa náðst í málinu.