Spáir því að íslenskan deyi út að óbreyttu

Innlent
 · 
Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Viðskipti
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Spáir því að íslenskan deyi út að óbreyttu

Innlent
 · 
Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Viðskipti
18.08.2017 - 13:47.Dagný Hulda Erlendsdóttir
Sala á bókum hér á landi hefur farið úr átta eintökum á hvern Íslending á ári í rúmlega fjögur á sex árum. Ágúst Einarsson, prófessor, segir lengi hafa verið ljóst að þróunin yrði á þennan veg. Verði ekkert að gert deyi íslenskan út.

Vænlegt væri að taka upp svipað fyrirkomulag í bókaútgáfu hér á landi og í kvikmyndagerð, það er að ríkið endurgreiði hluta framleiðslukostnaðar, að mati Ágústs. „Það myndi efla útgáfufyrirtækin mikið. Bókaútgáfa er ekki gróðaatvinnuvegur og verður það ekki eðli málsins samkvæmt. Ýmislegt er gefið út af hugsjón en það gengur ekki endalaust,“ segir hann.

Dýrar bækur því markaðurinn er lítill

Ágúst segir það í höndum hins opinbera að auka framlög til bókaútgáfu. „Ef stjórnvöld sýna þessu ekki áhuga þá deyr tungumálið hægt og rólega. Menn bara yppa öxlum og ég hef verulegar áhyggjur af þessu,“ segir Ágúst sem sendi frá sér bókina Hagræn áhrif ritlistar árið 2014. Hann segir þróunina ekki koma á óvart. „Þetta var alveg augljóst því að menn sinna þessum málaflokki ekki. Það þarf að auka virðingu fyrir hinu lesna máli og það gerist ekki nema hið opinbera taki sig á.“ Hann segir bækur á íslensku dýrar því að markaðurinn sé lítill. Það sé því samfélagslegt verkefni að hjálpa til með bókaútgáfu.

Segir öll skólastig vanta bækur á íslensku

Fyrstu skref til að snúa þróuninni við ættu að vera að efla útgáfu á kennslubókum á íslensku fyrir grunn- og framhaldsskóla- og háskólanemendur sem og niðurfelling virðisaukaskatts, að mati Ágústs. „Hér á landi var þver öfug leið farin og virðisaukaskatturinn hækkaður árið 2015. Það var afspyrnu heimskulegt.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Skólabókasöfn svelt síðan í bankahruninu

Hrun í lestri bóka og dagblaða  helst að hendur í vöxt rafrænnar afþreyingar enda hefur notkun snjallsíma og spjaldtölva aukist mikið. Ágúst segir ljóst að samfélagið hafi breyst geysilega mikið undanfarin ár, áður hafi börn og unglingar lesið en sæki nú í aðra afþreyingu. Hann segir lesskilning barna og unglinga einn áhrifavald þegar kemur að minnkandi lestri. „Hluti fólks er ólæst og getur ekki lesið sér til gagns. Þetta hefur verið staðfest með PISA-könnunum og er áfellisdómur yfir skólakerfinu.“ Ágúst segir brýnt að meira fé verði veitt til Bókasafnssjóðs og skólabókasafna. „Þau hafa verið svelt síðan í hruninu. Skólabókasöfnin eru mjög mikilvæg, sérstaklega gagnvart ungu kynslóðinni. Ef þau verða ekki efld fáum við ungar kynslóðir sem aldrei lesa sér til skilnings.“ Hann segir Íslendinga standa hinum Norðurlöndunum langt að baki þegar kemur að lesskilningi og lestri ungmenna. 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bókaþjóðin að verða snjalltækjaþjóð

Menningarefni

Þriðjungur bóksölunnar gufaður upp