Söngvakeppnin - uppselt á úrslitin

22.01.2016 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Erla  -  RÚV
Undanfarin ár hefur unnendum Söngvakeppninnar gefist kostur á að vera viðstaddir lokaæfingu og úrslit Söngvakeppninnar. Á síðasta ári var undankeppnunum bætt við og óhætt er að segja að í öllum tilvikum hafi færri komist að en vilja.

 

Troðfullt á úrslitin í Laugardalshöll

Í ár fara undankeppnirnar fram í Háskólabíói og lokaæfingin og úrslitin í Laugardalshöll.  Með tilkomu Laugardalshallarinnar hefur miðamagn á Söngvakeppnina tvöfaldast frá því í fyrra og ljóst að ekki var vanþörf á því miðasala hefur gengið gríðarlega vel og nú er orðið uppselt á úrslitin!

Ennþá er hægt að nálgast miða á undankeppnirnar tvær í Háskólabíó og lokaæfinguna í Laugardalshöll auk þess sem nokkrir Alla leið pakkar eru ennþá eftir sem gilda inn á undankeppnirnar tvær og úrslitin.

Loreen og Sandra Kim verða með á lokaæfingunni

Vert er að vekja athygli á lokaæfingunni sem fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 20. febrúar kl. 15.15.  Öll umgjörð og fyrirkomulag flutnings á lokaæfingunni verður með sambærilegum hætti og í úrslitakeppninni um kvöldið. Þær Loreen og Sandra Kim munu að sjálfsögðu koma fram á lokaæfingunni líka.  Með því að hafa lokaæfinguna opna er ekki síst verið að horfa til þess að gefa yngstu kynslóðinni tækifæri til að koma í Laugardalshöllina og fylgjast með Söngvakeppninni og miðaverði á hana stillt í hóf í samræmi við það, aðeins 1.900 kr.

Íslenskar stjörnur mæta líka

Auk lagana 12 sem keppa í Söngvakeppninni verður stórskotalið íslenskra tónlistarmanna á öllum keppnunum til að skemmta jafnt áhorfendum í sal sem heima í stofu.

Laugardagur 6. febrúar 2016 í Háskólabíói - Fyrri undankeppni
-Sex lög keppa
-Páll Óskar og Sturla Atlas, Logi Pedro og Unnsteinn Manuel (101 boys) koma fram

Laugardagur 13. febrúar 2016 í Háskólabíói - Seinni undankeppni
-Sex lög keppa
-Högni Egilsson og Pollapönk koma fram

Laugardagur 20. febrúar 2016 í Laugardalshöll - Lokaæfing
-Lögin sex sem keppa til úrslita
-Loreen og Sandra Kim koma fram

Laugardagur 20. febrúar 2016 í Laugardalshöll - Úrslit
-Lögin sex sem keppa til úrslita
-Loreen og Sandra Kim koma fram

Kynnar keppninnar í ár eru þær Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Guðrún Dís Emilsdóttir.

Miðasala er á tix.is

Mynd með færslu
Felix Bergsson
dagskrárgerðarmaður
Söngvakeppnin 2016
Eurovision