Sóknin að Mósúl heldur áfram

27.03.2017 - 05:33
Residents carry the body of several people killed during fights between Iraq security forces and Islamic State on the western side of Mosul, Iraq, Friday, March 24, 2017. Residents of the Iraqi city's neighborhood known as Mosul Jidideh at the scene
 Mynd: AP
Íraksher hélt í gær áfram sókn sinni að höfuðvígi Íslamska ríkisins í Mósúl, eftir eins sólarhrings hlé í kjölfar fregna af miklu og vaxandi mannfalli meðal almennings nú þegar æ harðnandi átökin eru að færast inn í þéttbýlustu hverfi borgarinnar. Yfirstjórn hernaðarbandalags Íraka, Bandaríkjamanna og fleiri lýsti því yfir í gær að hlé yrði gert á árásum á meðan grafist yrði fyrir um sannleiksgildi frásagna af því, að yfir 200 óbreyttir borgarar hefðu fallið í loftárás Bandaríkjamanna.

Þrjú fjölbýlishús í Jadída-hverfi í Mósúl voru sögð hafa verið jöfnuð við jörðu í árásinni. Íraksher sendi svo frá sér yfirlýsingu á sunnudag, þar sem því er haldið fram, að engin merki hafi fundist um að húsin hafi hrunið vegna loftárásar. Þvert á móti hafi fundist sönnunargögn um að vígamenn Íslamska ríkisins hafi verið að verki.

Í yfirlýsingunni segir að teymi hernaðarsérfæðinga hafi kannað rústir húss, sem fregnir hermdu að hefði hrunið eftir loftárás. Sérfræðingarnir hefðu fundið óræk merki um sprengjugildrur, en engin göt eða holur sem bentu til loftárásar. Þá hefði 61 líki verið bjargað úr rústunum, en ekki ríflega 200, eins og vitni á vettvangi höfðu borið. Fréttamenn fengu ekki aðgang að rústunum og Bandaríkjaher, sem viðurkenndi að hafa gert loftárás á þennan hluta Mósúlborgar í síðustu viku, hefur ekki lokið sinni rannsókn.

Sókn Írakshers heldur áfram engu að síður og harðir bardagar geisa enn víða í borginni, rúmlega fimm mánuðum eftir að þessi nýjasta stórsókn gegn höfuðvígi Íslamska ríkisins í Írak hófst. Stjórnvöld í Bagdad segja að um 200.000 manns hafi flúið borgina á þessum tíma. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna telja að á milli 400.000 og 600.000 séu enn innilokuð í borginni og að ástandið þar fari hríðversnandi. Enginn geti talist öruggur um líf sitt í Vesturborg Mósúl.

Caroline Gluck, talskona flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Írak, segir að auk mannskæðra bardaga og loftárása knýi hungrið æ fleiri til að freista þess að flýja, þrátt fyrir hætturnar sem því fyljga. Fjöldi fólks þurfi að lifa á einni máltíð á dag, „og sú máltíð er ekkert nema vatn og hveiti," segir Gluck. „Fólk er örvilnað; það er ekkert eldsneyti, engin kynding og þau brenna húsgögnum og gömlum mottum til að halda á sér hita."