Slagar í ofsaveður vestan- og norðantil

15.02.2016 - 18:04
Mynd með færslu
Mynd úr safni  Mynd: Landsbjörg
Útlit er fyrir að óveðrið sem gengur yfir landið í kvöld og fram á morgun slagi hátt í ofsaveður á svæðinu frá Breiðafirði austur fyrir Eyjafjörð seint í nótt og í fyrramálið. Þá gerir Veðurstofan ráð fyrir að suðvestanáttin nái 25 til 30 metrum á sekúndu þegar veðrið verður hvað verst. Spáin fyrir norðan- og norðvestanvert landið í fyrramálið er talsvert verri en hún var í morgun.

Á norðaustan- og austanverðu landinu er gert ráð fyrir að suðaustanátt nái átján til 25 metrum á sekúndu í kvöld með mikilli rigningu. Eftir miðnætti dregur þó smám saman úr vindi og úrkomu. Svipaða sögu er að segja af Suðurlandi.

Vestantil er útlit fyrir þrettán til átján metra á sekúndu framan af en veðrið versnar norðan- og vestantil upp úr miðnætti. Þá snýst í suðvestan átt, fimmtán til 23 metra á sekúndu með éljum á Faxaflóa en átján til 25 metra frá Breiðafirði austur með Norðurlandi, austur fyrir Eyjafjörð. Seint í nótt hvessir enn frekar og er útlit fyrir að vindur fari í 25 til 30 metra á sekúndu.

Viðvörun Veðurstofunnar er svohljóðandi:

Veðurstofa Íslands vill vekja athygli á því að síðdegiskeyrslur veðurlíkana benda eindregið til þess að veður á NV- og N-verðu landinu verði talsvert verra í fyrramálið en útlit var fyrir í morgun. Er fólki bent á að fylgjast vel með veðurspám og veðurathugunum. 

Nánar um útlitið: Í kvöld er búist við suðaustan 18-25 m/s á norðaustan- og austanverðu landinu og mikilli rigningu. Eftir miðnætti dregur smám saman úr vindi og úrkomu og í fyrramálið er spáð suðvestan 8-15 m/s og þurrviðri. Vestantil á landinu er nú suðaustan 13-18 m/s og rigning en á Suðurlandi hvessir í kvöld, og er spáð suðaustan 18-25 m/s þar um tíma. Upp úr miðnætti snýst í suðvestan 15-23 m/s með éljum á Faxaflóa en 18-25 m/s frá Breiðafirði austur með Norðurlandi, austur fyrir Eyjafjörð. Seint í nótt hvessir enn frekar, og gera líkön nú ráð fyrir suðvestan 25-30 m/s á svæðinu, en veðrið gengur yfir um og upp úr hádegi. Samfara þessum vindhraða má búast við snjókomu og skafrenningi og því ekkert ferðaveður á þessum slóðum fyrr en eftir hádegi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV