Skýrsla um Kópavogshæli í vor

14.01.2016 - 17:16
Talið er að 175 börn yngri en 18 ára hafi verið vistuð á Kópavogshæli þau rúmlega 40 ár sem hælið var rekið. Vistheimilanefnd sem skipuð var á vordögum 2012 stefni að því að skila skýrslu í vor um starfsemi hælisins.

Nefndin, sem nú er að störfum, tók við af vistheimilanefnd sem kannaði aðbúnað barna á t.d. Breiðavík fyrir vestan. Þrýst var á að samskonar könnun yrði gerð á starfsemi vistheimila fyrir fötluð börn. Byrjað var á því að skoða starfsemi Kópavogshælisins sem hóf starfsemi 1952 og stóð allt til 1993. Hælinu var þó ekki lokað að fullu en starfshættir breyttust. Enn eru nokkrir vistmenn þar sem hafa verið þar árum saman en við allt annan aðbúnað en tíðkaðist þar áður. Í erindisbréfi vistheimilanefndar er henni meðal annars ætlað að leitast við að staðreyna hvort og þá í hvaða mæli börn sem voru vistuð á hælinu hafi sætt illri meðferð og eða ofbeldi á meðan þau voru á hælinu. Hrefna Friðriksdóttir, formaður nefndarinnar segist ekki geta upplýst nú hvort nefndin hafi fengið upplýsingar um illa meðferð barna.

„Við höfum verið að safna öllum skráðum gögnum. Við erum enn að lesa í gegnum þetta, vinna úr þessu og kortleggja þetta,“ segir Hrefna

Með hnefann á lofti

Ýmislegt hefur verið sagt og ritað um aðbúnaði á Kópavogshæli og margt miður gott. Hælið var að sjálfsögðu barn síns tíma en af frásögnum er ljóst að ofbeldi viðgekkst gegn vistmönnum, spennitreyjur voru notaðar og vistmönnum refsað, meðal annars með því að dúsa í sellum. Rannsókn vistheimilanefndar beinist að börnum sem voru á hælinu. Í bókinni Þroskaþjálfar á Íslandi, saga stéttar í hálfa öld, eftir Þorvald Kristinsson, kemur fram að hælið hafi verið harður heimur fyrir börn sem þar dvöldu. Barnadeild var ekki stofnuð fyrr en 1972 en fram að þeim tíma voru börnin vistuð með fullorðnum vistmönnum. Drengir hafi átt harða ævi, snöggtum verri en stúlkurnar sem voru á kvennadeildum.

„Ég var eitt sinn að koma úr hádegismat og yfir á karladeild þar sem ég var á vakt þegar ég gekk fram á vaktmann þar sem hann stóð yfir litlum horuðum dreng, sjö eða átta ára gömlum, og hafði bundið hann við ofn í dagstofunni með báðar hendur fyrir aftan bak svo að drengurinn gat ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þarna stóð maðurinn yfir drengnum með hnefann á lofti, öskraði svo á hann að þegja, en barnið veinaði og grét og kastaði svo allt í einu upp á gólfið af einskærri skelfingu.“

Þetta var brot úr frásögn Rannveigar Traustadóttur sem starfaði á hælinu á 7. áratugnum. Hún situr reyndar í vistheimilanefndinni og er nú prófessor við Félagsvísindadeild HÍ. Ljóst er að fjölmörg börn voru í sólarhringsvistun árum saman. 1973 voru 106 börn 15 ára og yngri í slíkri vistun en þó ekki öll á Kópavogshæli. Hrefna segir að skoðun nefndarinnar hafi leitt í ljós að 175 börn yngri en 18 ára hafi verið í vistun á Kópavogshæli frá 1952 til 1993. Flest voru þau þar langdvölum. Nefndin auglýsti í desember og aftur í gær þar sem óskað var eftir því að börn og aðstandendur og fyrrverandi starfsmenn hefðu samband ef þau hefðu áhuga á að koma vitneskju um starfsemi hælisins og aðbúnað á framfæri. 12 hafa haft samband en þegar hafa verið tekin viðtöl við bæði vistmenn, aðstandendur og starfsmenn.

Átti að skila að ári

Í skipunarbréfi vistheimilanefndar sem var skipuð í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í júlí 2012, kemur fram að nefndin skili skýrslu eigi síðar en í apríl næsta ár. Reyndar þegar ný ríkisstjórn var að taka við völdum. Engin skýrsla hefur litið dagsins ljós og nefndin hefur verið að störfum í rúm þrjú og hálft ár. Hrefna segir að hún hafi strax sagt að það tækist ekki að ljúka nefndarstörfum á einu ári og að skilningur hefði verið á því af hálfu stjórnvalda. Hrefna bendir á að nefndin sem nú er að störfum njóti ekki eins mikillar aðstoðar og fyrri nefnd og svo sé umfangið mjög stórt.

„Þetta er gríðarlegt magn af skjölum sem við höfum safnað saman og þetta tekur því miður bara þennan tíma,“ segir Hrefna Friðriksdóttir.

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi