„Skyndilega koma stórar öldur“

12.02.2016 - 22:22
Adolf Arnarson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að framan af degi hafi gengið vel að gæta að öryggi ferðamanna við Reynisfjöru. Þegar leið á hafi reynst mörgum erfitt að fara eftir fyrirmælum og blotnuðu þó margir og þrír ferðamenn lentu í sjálfheldu. Viðtal við Adolf og myndir úr Reynisfjöru má sjá hér að ofan.

„Framan af degi gekk þetta mjög vel en við höfum verið að ströggla við suma sem hafa verið að fara alveg niður í flæðarmálið. Þetta er þannig hér að skyndilega koma bara stórar öldur sem fara ansi langt upp í fjöruna.“

Adolf segir alla bílstjóra og leiðsögumenn koma því til skila til ferðafólks að mjög varasamt sé í fjörunni. „Það er bara eins og fólk gleymi svo öllu sem hefur verið sagt við það.“