Skráningar nýrra hópferðabíla fjórtánfaldast

11.02.2016 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  RÚV
Nýjum hópferðabílum hefur fjölgað ört á Íslandi frá bankahruni, samhliða sprengingu í komum erlendra ferðamanna til landsins. Frá árinu 2009 hefur fjöldi nýskráninga á hópferðabílum hérlendis nærri fjórtánfaldast.

Frá árinu 1988 hafa 1.770 nýir hópferðabílar, eða rútur, verið nýskráðir hérlendis eða 63 bílar á ári að meðaltali. Þeir eru af öllum stærðum og gerðum, frá tíu manna bílum upp í rútur sem taka hátt í sextíu farþega í sæti.

Hrunárið 2008 voru 37 nýir hópferðabílar nýskráðir á Íslandi en árið eftir voru þeir ekki nema átta talsins. Síðan þá hefur nýskráningum nýrra hópferðabíla fjölgað ört.  Skoða má þróunina í neðangreindu grafi sem byggir á upplýsingum frá Samgöngustofu.

Aldrei hafa fleiri nýir hópferðabílar verið nýskráðir á Íslandi og í fyrra þegar þeir voru 110 talsins. Árin 2005 og 2014 voru þeir 106 en fara þarf aftur til ársins 1992 til að finna næstmesta fjölda nýrra bifreiða af þessu tagi.  Þá voru þær samtals 97.

Það sem af er ári hafa 17 nýir hópferðabílar verið nýskráðir hérlendis. Á skrá í dag eru 2.493 hópferðabílar, þar af eru 1.786 þeirra í umferð.

Fimmtíu nýir hópferðabílar á leiðinni til landsins

Páll Halldór Halldórsson, sölustjóri hjá bílaumboðinu Öskju, segir að hátt í fimmtíu nýir hópferðabílar, sem pantaðir hafi verið fyrir kaupendur, séu á leiðinni til landsins á vegum fyrirtækisins. „Þetta eru allar stærðir bíla en flestir þeirra eru af smærri gerðinni, svokallaðir kálfar, en svo eru líka þarna stærri rútur sem taka hátt í sjötíu farþega,“ segir Páll Halldór í samtali við fréttastofu. Askja er stærsti innflytjandi hópbifreiða á Íslandi.

Áður fyrr, þegar keyptur var nýr hópferðabíll fyrir fleiri en 17 farþega, gátu kaupendur sótt endurgreiðslu til ríkissjóðs sem nam 2/3 hlutum af virðisaukaskatti sem var 24 prósent af kaupverði. Hið sama gilti hins vegar ekki þegar notaður hópferðabíll var keyptur til landsins.

Um áramótin tóku gildi lagabreytingar, þannig að nú geta kaupendur hópferðabíla, og þá gildir einu hvort bíllinn er nýr eða gamall, fengið virðisaukaskatt af kaupverði, varahlutum, dekkjum, olíu og eldsneyti til frádráttar. Páll Halldór segir að stjórnvöld hafi ráðist í lagabreytingarnar til að ýta undir endurnýjun á flotanum sem var, að minnsta kosti að hluta til, kominn til ára sinna. „Það sem er að gerast hins vegar núna er fyrst og síðast aukning en ekki endurnýjun á flotanum enda heyrir það til undantekninga að við fáum gamla bíla upp í kaup á nýjum,“ segir Páll Halldór.

Ferðamönnum á bara eftir að fjölga

Ekkert lát virðist á komum erlendra ferðamanna til landsins.  Spár gera ráð fyrir að þeim muni fjölga um allt að 200.000 á ári næstu árin. Þá hefur einyrkjum sem bjóða upp á ferðaþjónustu fjölgað ört samhliða sívaxandi vinsældum Íslands á heimsvísu sem áfangastaðar fyrir ferðaþyrsta.

Afhendingartími bílaumboðanna á nýjum hópferðabíl getur numið allt að níu mánuðum. Smærri bílar geta kostað allt að fjórtán milljónum króna, fyrir utan virðisaukaskatt, og þeir stærri kosta á bilinu 40 til 50 milljónir króna. Sölustjóri Öskju segir nóg að gera. „Við tókum frá 25 bíla hjá söluaðila okkar í Póllandi í september en þeir voru uppseldir í byrjun desember. Það er greinilega mikil þörf fyrir bíla til að keyra þessa ferðamenn um í,“ segir Páll Halldór í samtali við fréttastofu.

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV