Skjálfti af stærð 8,1 skók Mexíkó og Gvatemala

08.09.2017 - 06:56
Mynd með færslu
Skjálftinn varð í Chiapas, í sunnanverðu Mexíkó, skammt frá landamærunum að Guatemala.  Mynd: USGS
epa06191404 Patients and doctors of a hospital in Villahermosa, Mexico, remain in the open air after a strong earthquake magnitude 8.4 on the open Richter scale violently shook Mexico, early 08 September 2017. According to the National Seismological
F'olk forðaði sér út úr sjúkrahúsinu í Villahermosa, höfuðborg Tabasco-ríkis, við Mexíkóflóann, þegar skjálftinn reið yfir við Kyrrahafsströndina  Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Öflugur jarðskjálfti af stærðinni 8,1 reið yfir sunnanvert Mexíkó laust fyrir klukkan fimm í nótt að íslenskum tíma. Skjálftinn varð á 70 kílómetra dýpi við Kyrrahafsströnd Chiapas-ríkis, syðsta ríkis Mexíkós. Fannst hann víða um land, líka í höfuðborginni þar sem fólk forðaði sér út undir bert loft þegar viðvörunarflautur gullu. Þá skalf jörð um mest allt land í Gvatemala, sem liggur að Chiapas-ríki.

Fréttir af manntjóni og tjóni á mannvirkjum eru óljósar enn, en Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að minnst fimm séu látnir. Tveir létust í Chiapas-ríki og tveir í Tabasco-ríki. Þá hefur forseti Guatemala greint frá einu mannfalli þar í landi.

Flóðbylgjuviðvörun var gefin út fyrir alla vesturströnd Mexíkós, Mið-Ameríkulöndin Gvatemala, El Salvador, Kosta Ríka, Níkaragva, Panama og Hondúras og reyndar alla leið suður til Ekvadors. Talið er að skjálftinn geti framkallað meira ein þriggja metra háar flóðbylgjur.

Nokkrir eftirskjálftar á bilinu 4,9 - 5,7 fylgdu í kjölfar stóra skjálftans. 

Skólum hefur verið lokað í höfuðborg Mexíkó og Chiapas-ríki.

Innanríkisráðuneyti Mexíkó heldur því fram að skjálftinn hafi verið 8,4 að stærð, sem væri öflugasti skjálfti sem mælst hefur í Mexíkó. Samkvæmt fyrstu fregnum var hann 8,1 að stærð en staðfestar mælingar hafa ekki borist. Hvort sem rétt reynist væri hann stærri en skjálftarnir sem riðu yfir Mexíkó árið 1995 og 1985. Sá síðari varð í nágrenni við höfuðborg Mexíkó og olli þúsundum dauðsfalla.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV