Skegg Raspútíns - Guðrún Eva Mínervudóttir

Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Bók vikunnar

Skegg Raspútíns - Guðrún Eva Mínervudóttir

Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Bók vikunnar
Mynd með færslu
15.05.2017 - 16:59.Jórunn Sigurðardóttir.Bók vikunnar
Skegg Raspútins sem Guðrún Eva Mínervudóttir sendi frá sér fyrir síðustu jól er að hennar sögn hvort tveggja í senn sannsaga og skáldsaga. Sannsaga því þar segir frá raunverulegum persónum, einkum þeim Ljúbu og Evu en líka eiginmönnum þeirra og fjölskyldum.

Skegg Raspútins er Bók vikunnar að þessu sinni. Umsjónarmaður þáttarins er Halla Þórlaug Óskarsdóttir og fær hún til sín þær Gunnþórunni Guðmundsdóttur prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands og Þórdísi Gísladóttur rithöfund.

Þegar rithöfundurinn Guðrún Eva kynntist garðyrkjukonunni Ljúbu frá Lettlandi í Hveragerði vakti þessi praktíska kona áhuga hennar. Rithöfundinn langaði að skrifa um þessa konu, hvernig lífi hún hefði lifað áður en hún kom til Hveragerðis. En til þess að geta siðferðislega notað lifandi persónu og góða vinkonu sem sögupersónu þótti Guðrúnu Evu sem hún þyrfti að leggja eitthvað á móti. Og hún lagði sjálfan sig á móti og reyndar ýmsar fleiri persónur henni nátengda. Þannig er Skegg Raspútín saga um vináttu þeirra Ljúbu og Evu og þeirra daglega líf með fjölskyldum sínum. 

Guðrún Eva byrjaði kornung að skrifa og hefur sent frá fjölda bóka, ljóðabækur, minningabækur og að minnsta kosti átta skáldsögur sem eru hver annarri ólíkari en Guðrún Eva er einn þeirra höfunda sem nánast með hverri bók kemur á óvart og þannig var það líka með Skegg Raspútíns.

Hér má hlusta á Guðrúnu Evu lesa tvö brot úr sögunni Skegg Raspútíns og fjallar fyrri kaflinn einmitt um titilpersónuna Raspútín, hinn guðsfrelsaða flakkara, flagara og fyrrum fyllibyttu sem varð ráðgjafi Nikulásar Rússakeisara og Alexöndru drottningar og sérlegur líflæknir hins dreyrasjúka sonar þeirra. Sá síðari sem er tekinn úr síðari hluta bókarinnar segir hins vegar frá Evu og eiginmanni hennar þegar hún greinir honum frá því að hún ætli að hefja störf hjá Ljúbu vinkonu sinni. Á milli brotanna má svo heyr viðtal við Guðrúnu Evur um tilurð bókarinnar og þær ólíku sögur sem þar fléttast saman. Það mikilvægasta í lífinu er að hafa í sig og á og segja sögur, sögur sem miða að því að komast alltaf á endanum á kjöl í lífsins ólgusjó sem getur falið sér að enda í brjáluðu partíi með villtum skemmtiatriðum á sama tíma og maður liggur sofandi á eldhúsgólfinu heima hjá sér.

Skegg Raspútíns er óður til hversdagslífsins, hvernig allt verður að hafa sinn gang og getur verið svo skemmtilegt og fagurt í einfaldleik sínum og gróandi. Um leið er Skegg Raspútíns saga um ást og um vonina og um trúna og mátt dáleiðandi augna.

Hér má hlusta á þáttinn í heild sinni.