Sigmundur standi sterkt þrátt fyrir gagnrýni

26.03.2016 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Þórunn Egilsdóttir, varaformaður þingflokks Framsóknarflokksins, telur forsætisráðherra standa sterkt þrátt fyrir Wintris-málið og þá gagnrýni sem fram hefur komið. Enginn hafi gengið harðar fram í að verja hagsmuni íslenska ríkisins en forsætisráðherra. Ekki hefur þótt ástæða til að ræða málefni forsætisráðherra sérstaklega í þingflokknum og gefur hún lítið fyrir gagnrýni stjórnarandstöðu.

Sérstaklega gagnrýni Svandísar Svavarsdóttir um að Sigmundur hafi ógnað efnahagslegu fullveldi, þar sem Svandís hafi barist fyrir því að skuldsetja þjóðina í Icesave-málinu. 

Stjórnarandstaðan hefur undanfarna daga viðrað vantrauststillögu gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra vegna félags eiginkonu hans á Bresku-Jómfrúreyjum og kröfum sem félagið lýsti í föllnu bankana.

Sterk staða

„Ég met hana [stöðu ráðherra, innsk. blm.] góða. Hann hefur staðið vaktina fyrir þjóðina, staðið sig vel í stykkinu og ég tel hana góða,“ segir Þórunn. En telur hún að forsætisráðherra hefði átt að upplýsa um félag eiginkonu sinnar og kröfur þess í föllnu bankana, jafnvel þó hann hafi staðið sig vel í að verja hagsmuni þjóðarinnar? „Það er ekkert sem segir að hann hefði átt að gera það. Það hefur legið ljóst fyrir lengi að konan hans er efnuð kona, við vitum það öll. En okkur ber ekki sem þingmönnum að upplýsa um fjárhagsstöðu maka okkar, þannig að nei, ég sé ekkert í því.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson  -  Facebook
Anna og Sigmundur. Voru ekki gift þegar Wintris var stofnað en Anna sagði á Facebook að félagið hafi verið skráð á þau bæði í upphafi fyrir mistök.

Sigmundur og Anna Sigurlaug Pálsdóttir voru ekki gift þegar Wintris var stofnað en Anna sagði í Facebook-færslu að félagið hafi verið fyrir mistök banka skráð á þau bæði í upphafi. Þau mistök hafi síðar verið leiðrétt. En telur Þórunn það réttmæta gagnrýni þegar talað er um að hagsmunir Sigmundar og Önnu, sem giftu sig árið 2010, séu sameiginlegir?

Jafnrétti eða almannahagsmunir?

„Við komum þá bara inn á sjálfstæði og jafnrétti í nútímanum. Hvernig stöndum við þá sem hjón ef við þurfum alltaf að gefa upp fjárhag maka í þeim störfum sem við tökum að okkur?“ Trompar það sjónarmið rétt almennings til að vita um möguleg hagsmunatengsl helstu ráðamanna? „Það er hlutur sem við þurfum að velta fyrir okkur og skoða vel.“

Þrír stjórnarþingmenn hafa sagt málið erfitt og óþægilegt fyrir stjórnarsamstarfið. Þeir Vilhjálmur Bjarnason, Brynjar Níelsson og Ásmundur Friðriksson. Telur Þórunn að svo sé? „Nei það held ég ekki og það ætti ekki að vera. Við höfum tekist á um ýmis mál og þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða á milli flokkana. Þórunn segir að ekki hafi þótt ástæða til að ræða málið sérstaklega í þingflokki Framsóknarflokksins. „Við höfum ekki séð ástæðu til að koma sérstaklega saman út af þessu máli.

Efnahagslegu fullveldi ógnað?

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefur gagnrýnt að eiginkona Sigmundar eigi aflandsfélag á sama tíma og Ísland ásamt ríkjum OECD berjist gegn þeim. Hann hafi með því grafið undan efnahagslegu fullveldi Íslands.

„Það finnst mjög sérstakt. Að manneskjan sem barðist hvað harðast fyrir því að íslenska þjóðin greiddi háar fjárhæðir til að bjarga erlendum kröfuhöfum í stað þess að verja hagsmuni, og ætlaði að taka stórt lán, að hún tali á þennan máta núna. Ekki var verið að ganga hagsmuna Íslendinga þá.“

En er gagnrýnin óréttmæt um að það skjóti skökku við að eiginkona forsætisráðherra eigi eignir í aflandsfélagi á sama tíma og íslenska ríkið berjist gegn slíku? „Jú, það er alveg rétt en það hefur enginn gengið harðar fram í því en Sigmundur Davíð. Ég virði það við hann að hann vildi ekki láta sín persónulegu mál trufla sig þegar hann var að ganga erinda og gæta hagsmuna íslenska ríkisins.“

Óvægin umfjöllun

Þingmenn Framsóknar hafa sagt að umræða og umfjöllun um málefni forsætisráðherra séu óvægin. Karl Garðarsson sagði í pistli að fréttastofa RÚV hefði opinberað sig sem óvin númer eitt með umfjöllun sinni um málið. Er Þórunn sammála því að umfjöllun hafi verið óvægin? „Það er svo sem ekkert nýtt. Það hefur verið það lengi og bæði stjórnaranstaðan og fjölmiðlar verið mjög harðir í gagnrýni á hann. Hann hefur svo sem ekki kveinkað sér undan því. En við drögum línurnar við fjölskyldurnar okkar.“

Er þá óvægið að kalla eftir upplýsingum um málið? „Nei alls ekki, enda liggja þær fyrir núna og það er búið að leggja allt á borðið.“