Sérstök neyðarrými í Norðfjarðargöngum

03.03.2016 - 19:10
Sérstök eld- og reykheld neyðarrými verða útbúin í Norðfjarðargöngum en það er í fyrsta sinn sem slíkar öryggisráðstafanir eru gerðar í jarðgöngum hér á landi. Framkvæmdum við göngin miðar vel og eru þau þegar farin að nýtast til sjúkraflutninga.

Norðfjarðargöng eru næstum 8 kílómetra löng milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Þau munu leysa af hólmi fjallveginn um Oddsskarð sem ósjaldan hefur tafið sjúkraflutninga á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Nú er búið að lokastyrkja gangaveggina og sjúkrabílar hafa nokkrum sinnum fengið að fara um göngin. „Sem betur hafa þau geta nýst til sjúkraflutninga þegar Oddsskarð er lokað. Nú síðast á aðfaranótt mánudagsins þá þurftum við að hleypa sjúkrabíl hér í gegn til að koma sjúklingi til Neskaupstaðar. Þeir hringja yfirleitt í okkur og við gerum þá verktakanum viðvart og könnum aðstæður og hvort að fært er í gegnum göngin. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því kannski einhverjir skurðir sem loka en fram til þessa hefur þetta bara gengið mjög vel,“ segir Guðmundur Þór Björnsson en hann sinnir eftirlit í göngunum fyrir verkfræðistofuna Hnit.

Vegagerðin styðst við norska staðla í gangagerð og þar er í skoðun að gera kröfu um neyðarrými. Því var ákveðið að útbúa fjögur slík í göngunum. „Þessi göng eru orðin það löng að flóttaleiðir fyrir fólk ef kviknar í eru orðnar ansi langar. Þar af leiðandi höfum við stækkað útskotin þar sem tæknirýmin eru staðsett. Þar verða sem sagt neyðarrými þar sem talsverður fjöldi fólks getur hafst við í einhverja klukkutíma í eld- og reykþéttu umhverfi með súrefni þangað til að björgun berst,“ segir Guðmundur.

Þá göngin virðist langt komin er um eitt og hálft ár þar til umferð verður hleypt þar í gegn. „Við erum að steypa þessi tæknirými og öryggisrými og við erum að steypa risastóra ídráttarbrunna fyrir Landsnet. Síðan á eftir að setja upp öll kerfi í göngin allur rafmagnspakkinn er eftir sem tekur fleiri fleiri mánuði. Þannig að þetta er ekki búið.“

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV