Seiður sírenunnar

Mr. Silla er listamannsnafn Sigurlaugar Gísladóttur en hún hefur verið viðloðandi íslenskt tónlistarlíf um margra ára skeið. Hér stígur hún hins vegar í fyrsta skipti fram með sólóplötu og er seiðandi raftónlist í forgrunni ásamt töfrum sleginni söngrödd. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í þessa plötu Mr. Silla, sem er plata vikunnar á Rás 2.

Mr. Silla, eða Sigurlaug Gísladóttir, hefur tilheyrt jaðargresjum íslenskrar tónlistar um langa hríð, frábær tónlistarmaður sem hefur lagt mörgum mektarsveitum og -listamönnum gott lið, og þá helst stórmeisturunum í múm. Þetta er þó, merkilegt nokk, í fyrsta sinn sem hún stígur ein og sér fram fyrir skjöldu á plötu (hún gaf út plötuna Foxbite ásamt Mongoose fyrir níu árum síðan).

Innilega draugalegt

Platan heitir einfaldlega eftir höfundinum, kannski til að undirstrika að það var fyrir löngu tímabært að hún tæki yfir sviðið ein. Hér leggur hún sig eftir raftónlist, melódískri og seyðandi - siglt er um rafmögnuð fljót í hægagangi og hverju lagi er leyft að afhjúpast jafnt og þétt. Það er innilegur andi yfir, áferðin er mjúk og hlý og tónlistin gárar undir eyrunum frekar en að bíta í þau.

Silla hefur eyra fyrir grípandi melódíum eður „krókum“. Þannig minnir „Reach for me“ sæmilega á hina merku sveit Moloko og um leið það sem snillingurinn Roisin Murphy hefur verið að gera upp á eigin spýtur. Reyndar er andinn hér heilt yfir nokkuð Murphy-legur og eigi er það leiðum að líkjast. Um leið nær Silla að ýfa upp dulítið draugalega stemningu á köflum, „Baobab“ minnir dálítið á Julee Cruise og allt það undurfurðulega sem þreifst í hljóðrásum Twin Peaks bálksins. Í því lagi nýtir Silla röddina vel, hún er í brennidepli og þetta er mikil söngplata ef út í það er farið. Í þeim efnum rís hún hvað hæst í „One Step“, sérdeilis magnað lag, kröftugt og ægifagurt þar sem tilfinningaþrunginn flutningurinn ryðst inn að hjartarótum.

Innrömmun

Ég hef verið að draga inn nöfn annarra til að ramma þetta inn en höfum samt á hreinu að hér flögra engar hermikrákur yfir. Mr. Silla á þetta sólóverk sitt ein og sér og hið besta mál að hún hafi látið slag standa. Vonandi verður framhald þar á.

Mynd með færslu
Arnar Eggert Thoroddsen
dagskrárgerðarmaður
Poppland
Þessi þáttur er í hlaðvarpi