Segir slaka í ríkisfjármálum skýra gjána

29.05.2017 - 18:07
Seðlabankastjóri segir slaka í ríkisfjármálum síðustu ár skýra mikinn mun á verðbólgumælingum með eða án húsnæðisverðs og háa vexti. Verðhjöðnun væri á Íslandi ef húsnæðisverð væri ekki í verðbólgumælingum.

Samkvæmt nýrri verðbólgumælingu Hagstofunnar er verðbólga hér á landi 1,7 prósent og hefur því verið undir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans síðan í janúar 2014. 

Sé húsnæðisverð undanskilið breytist verðbólgumælingin töluvert. Hækkun húsnæðisverðs undanfarin ár hefur haldið verðbólgunni uppi og án hækkunar á húsnæðisverði væri hér engin verðbólga, heldur þvert á móti, verðhjöðnun. Verðhjöðnun án húsnæðisverðs síðustu tólf mánuði er 2,6 prósent og hefur aldrei mælst meiri.  

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að hér togist tveir kraftar á. Annars vegar fari verð á vörum og þjónustu lækkandi, sem hann kallar góðkynja verðhjöðnun. En hins vegar sé ljóst að það gæti vaxandi spennu í hagkerfinu, sem birtist meðal annars á fasteignamarkaði.

„Þetta er að togast á og til lengri tíma litið getur spennan falið í sér ógn við verðstöðugleika, en á móti kemur, þá eins og er er verðbólgan á heildina litið nokkuð undir markmiði,“ segir Már.

Hann segir þennan mikla mun ekki tilefni til þess að endurskoða þá stefnu að hafa húsnæðisliðinn inni í vísitölu neysluverðs, þar sem hann geti gefið vísbendingar um framtíðarverðbólgu. Eigi að endurskoða það þurfi að gera það heildstætt og taka tillit til mismunandi krafta og annarrar hagstjórnar, þar á meðal stefnunnar í ríkisfjármálum, sem hann segir hafa verið of slaka síðustu ár.

„Slakinn í ríkisfjármálum síðastliðin þrjú ár samsvarar næstum því þremur prósentum af landsframleiðslu, sem er settur inn sem örvun í hagkerfið og án þess væru væntanlega vextir á Íslandi lægri og gengið hugsanlega lægra, og þessi munur sem við sjáum þarna - eitthvað minni,“ segir Már. 

 

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV