Segir Pressuna skulda Birtingi, ekki öfugt

18.05.2017 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Eyjan  -  Stöð 2
Karl Steinar Óskarsson, framkvæmdastjóri útgáfufélagsins Birtings, segir í skriflegri yfirlýsingu til fréttastofu að Birtingur skuldi Pressunni enga fjármuni vegna rekstrar heldur skuldi Pressan ehf Birtingi „verulega fjármuni.“ Þá ítrekar hann að forsendur fyrir kaupum Pressunnar á Birtingi hafi verið brostnar - Pressan hafi ekki verið fær um að standa við sínar skuldbindingar líkt og komi fram í samkomulagi sem hafi verið undirritað af hálfu allra hlutaðeigandi í síðustu viku.

Fréttastofa greindi í dag frá því að hlutafjáraukning Pressunnar, sem á meðal annars DV, Eyjuna og sjónvarpsstöðina ÍNN, væri í uppnámi þar sem þess hefði verið krafist að fleiri legðu til hlutafé.

Haft var eftir Birni Inga Hrafnssyni, stjórnarformanni Pressunnar,  að kaupum félagsins á Birtingi hafi verið rift, þar sem tafir urðu á hlutafjáraukningunni. 
Eftir væri að ræða hvernig kaupin gengju til baka því umtalsverðar greiðslur hefðu farið milli félaganna, meðal annars helmingur kaupverðs og rekstrarfé í Birtingi. 

Karl Steinar sendi fréttastofu skriflega yfirlýsingu eftir fréttina. Þar var ítrekað að samkomulag um riftun kaupanna hafi verið undirritað af hálfu allra þann 10. maí. „Forsendur kaupanna voru brostnar og Pressan ehf. ekki fær um að standa við skuldbindingar sínar líkt og fram kemur í samkomulaginu.“

Karl segir enn fremur að greiðsla inn á kaupverð hafi komið frá þriðja aðila vegna vanefnda Pressunnar. „Í samkomulaginu um riftun felst að sú greiðsla verður gerð upp með samkomulagi við þann aðila.“ Það hafi þegar náðst og sé Pressunni óviðkomandi.  „Þá er rétt að undirstrika að Birtíngur ehf. skuldar enga fjármuni til Pressunnar ehf. vegna rekstrar heldur skuldar Pressan ehf. Birtingi ehf verulega fjármuni.“