Segir dóminn veita uppreist æru

Mynd með færslu
 Mynd: RÚVS  -  RÚV
„Ég er afskaplega þakklátur fyrir þessa niðurstöðu og tel hana rétta. Ég er afskaplega ánægður með að hafa fengið að standa í fararbroddi fyrir réttindum kennara til að tjá sig og geta verið í vinnunni án þess að vera ógnað af yfirvöldum,“ segir Snorri Óskarsson, oft kenndur við trúfélagið Betel. Hæstiréttur dæmdi í dag að Akureyrarbær hefði brotið lög með því að segja Snorra upp. Það var gert vegna ummæla sem hann lét falla á netinu um samkynhneigð.

Snorri segir að í þessu máli hafi hann fengið að standa sem trúaður einstaklingur fast á þeim grundvallaratriðum sem greint sé frá í Biblíunni. Hann segist hafa fengið uppreist æru með dómi Hæstaréttar. Hann hafi viljað standa á rétti til málfrelsis og til að halda fram kristnum sjónarmiðum. „Menn geta verið ósammála okkur en þá takast menn á um það.“

Hann kveðst svekktastur yfir því að Kennarasamband Íslands hafi ekki viljað berjast með sér í málinu, heldur vikið sér undan því. Kennarasambandið lét vinna greinargerð þar sem uppsögninni var andmælt en Snorri stóð einn í dómsmálinu.

„Næstu skrefin eru væntanlega að bera saman hvaða rétt ég á,“ segir Snorri, þar með talið að skoða hvort hann eigi rétt á bótum eða starfinu aftur.

Ísland hefur þótt standa framarlega hvað varðar réttindi samkynhneigðra og viðhorf til þeirra. Ummæli Snorra á þá leið að samkynhneigð væri synd og laun syndarinnar dauði fóru fyrir brjóstið á mörgum. En skilur Snorri hvers vegna fólk tók þessu illa? „Nei, ekki alveg. Ég hélt að fermingarfræðslan hefði komið einhverjum kristnum gildum þarna inn, vegna þess að það er mjög sterk boðun Biblíunnar að laun syndarinnar er dauði. Það er alveg sama hver syndin er.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV