Segir búvörusamning vera vandamálið

11.08.2017 - 18:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaráðherra segir ekki koma til greina að auka framlög til sauðfjárbænda án þess að nokkurra mánaða gamall búvörusamningurinn verði endurskoðaður. Formaður Bændasamtakanna segir vandann ekki vegna núgildandi samnings, en ef takist að taka á vandanum núna standi ekki á bændum að draga úr framleiðslu strax á næsta ári.

 

Lækkandi afurðaverð til sauðfjárbænda í haust og vandi þeirra hefur verið til umfjöllunar síðustu daga. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir vanda bænda liggja í búvörusamningnum sem Alþingi samþykkti í september á síðasta ári. Samningurinn hvetji til offramleiðslu, hún leiði síðan til mikils verðfalls á dilkakjöti. Þetta hafi verið fyrirséð. Skilvirkasta leiðin til að taka á vandanum sé að setjast niður og semja upp á nýtt. Fjármálaráðherra segir ekki koma til greina að ríkið setji meira fé í þetta að óbreyttu.

„Mér finnst að óbreyttu það ekki koma til greina. En mér finnst hins vegar sjálfsagt að reyna að leysa þennan vanda sem að núna er gegn því að menn endurskoði samninginn þannig að við stöndum ekki aftur fyrir sama vanda næsta sumar. Það er alvegt ómögulegt, það sér hver maður,“ segir fjármálaráðherra. 

Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands segir að í búvörusamningnum sem tók gildi síðustu áramót sé kveðið á um endurskoðun samningsins fyrir árið 2019. Landbúnaðarráðherra hafi skipað nefnd sem þegar hafi hafið störf. Bændur hafi verið í viðræðum við landbúnaðarráðherra frá því í mars vegna stöðunnar sem uppi er í sauðfjárræktinni núna. Menn hafi verið farnir að sjá fyrir um gengi krónunnar og þróun markaða, en það hafi ekki gengið eftir. Það geti verið að það kosti peninga að taka á stöðunni eins og hún er í dag, en horfa verði til hagsmuna landbúnaðar til lengri tíma.

„Ég held að við verðum bara  að halda okkur við það að við erum að ræða endurskoðun búvörusamninganna og ef að þessi ríkisstjórn ætlar að gera einhverja kröfu um það að ekkert komi til aðstoðar öðruvísi en að gerðar verði einhverjar veigamiklar breytingar þá held ég að við verðum að gefa okkur meiri tíma í það og það er um margt undarlegt, undarleg afstaða,“

Fjármálaráðherra segir bændur eins og fleiri líða fyrir sterka krónu og Sindri tekur undir það. Sindri segir vandann núna ekki vera vegna gildandi búvörusamnings, ekki sé farið að framleiða samkvæmt honum og því út í hött að kenna samningnum um. Ýmsar breytingar hafi verið gerðar frá fyrri samningi. Fjármálaráðherra segir að svo virðist sem hvorki bændur né aðrir séu ánægðir með samninginn og því skilji hann ekki hvers vegna var gerður svona vitlaus samningur, eins og hann orðar það. Sindri segir framleiðslu í raun ekki hafa aukist, heldur hafi erlendir markaðir lokast. 

„Við höfum verið að leita leiða með stjórnvöldum að ef við getum tekið á þessari stöðu sem er uppi núna, skammtímavandanum, þá skal ekki standa á okkur að leita leiða til þess að draga úr framleiðslunni strax á næsta ári,“ segir Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands. 

 

 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV