Sean Penn leiddi yfirvöld að Guzman

10.01.2016 - 04:20
FILE - In this Oct. 8, 2015 file photo, Sean Penn speaks during a forum with young entrepreneurs during the IMF and World Bank annual meeting in Lima, Peru. Late Saturday, Jan. 9, 2016, Rolling Stone magazine published an interview that Guzman apparently
 Mynd: AP
Bandaríski leikarinn Sean Penn hitti mexíkóska eiturlyfjabaróninn Joaquin Guzman í október síðastliðnum. Hann tók við hann viðtal sem birtist á vefsíðu Rolling Stone tímaritsins í nótt.

Sjö klukkustunda langur fundur þeirra fór fram í frumskógum Mexíkó í október. Þeir héldu áfram sambandi í gegnum síma og tölvu eftir það. AFP hefur eftir starfsmanni alríkislögreglu Mexíkó að þarlend yfirvöld hafi vitað af fundi Penn og Guzmans. Hann hafi verið liður í rannsókn yfirvalda og hjálpað til við að finna hann á föstudag.

Þegar þeir hittust sagðist Guzman vera sá maður sem dreifði meiru af heróíni, amfetamíni, kókaíni og maríjúana en nokkur annar í heiminum. Þeir sátu saman dágóða stund og náðu samkomulagi um að Penn fengi að taka við hann viðtal átta dögum síðar. Ekkert varð úr því vegna ýmissa vandamála, svo sem að Guzman lenti í skotbardaga við yfirvöld. En nokkrum dögum síðar náði Penn myndbandsviðtali við hann í gegnum tölvu. 

Guzman sagðist hamingjusamur maður því hann væri frjáls. Hann telur ekki að hann beri neina ábyrgð á fjölda eiturlyfjafíkla í heiminum. Þegar hans njóti ekki lengur við eigi fíklunum ekkert eftir að fækka. Sjálfur segist hann ekki hafa neytt eiturlyfja í 20 ár.

Penn komst í samband við Guzman í gegnum mexíkósku leikkonuna Kate del Castillo. Leiðir Guzmans og del Castillo lágu saman eftir færslu hennar á samfélagsmiðlum þar sem hún biðlaði til hans að nýta auðævi sín til þess að hjálpa mexíkósku samfélagi.

Penn tók mynd af sér með Guzman til staðfestingar á því að þeir hafi í raun hist.