Sanders saxar á forskot Clinton

Democratic presidential candidate, Sen. Bernie Sanders, I-Vt,  and Democratic presidential candidate, former Secretary of State Hillary Clinton spar during a Democratic presidential primary debate hosted by MSNBC at the University of New Hampshire
 Mynd: AP
Forskot Hillary Clinton á öldungadeildarþingmanninn Bernie Sanders hefur minnkað á landsvísu sé miðað við niðurstöður nýjustu könnunar sjónvarpsstöðvarinnar CNN sem birtar voru í kvöld. Sex prósentustigum munar nú á frambjóðendunum sem vonast til þess að verða forsetaefni demókrataflokksins í haust.

Clinton nýtur fylgis 48 prósenta miðað við niðurstöðurnar en 42 prósent fylgja Sanders. Áður en forkosningarnar í Iowaríki voru haldnar var forskot Clinton talsvert meira, eða 56 prósent gegn 32 prósentum Sanders. 

Sé rýnt í fleiri kannanir er forskot Clinton enn minna. Vefsíðan RealClear Politics heldur utan um fjölmargar kannanir og sýnir meðaltal þeirra sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum frá 10. til 17. febrúar að Clinton hefur rétt rúmlega fjögurra prósentustiga forskot á Sanders. Ein könnun sýnir Sanders með forskot, það er könnun Fox fréttastöðvarinnar þar sem hann nýtur 47 prósenta fylgis en Clinton 44 prósenta.

 

Clinton og Sanders hafa skipt á milli sín sigrum í fyrstu tveimur forkosningunum, Clinton sigraði í Iowaríki og Sanders í New Hampshire. Það ríkir því nokkur spenna fyrir forkosningarnar í Nevadaríki sem verða á laugardag.

Sé litið til Nevadaríkis hefur Sanders sótt verulega að Clinton undanfarna mánuði. Könnun meðal líklegra kjósenda demókrataflokksins sýndi mikið forskot Clinton í desember. Helmingur kjósenda hafði þá hugsað sér að velja hana en aðeins rúmlega fjórðungur studdi Sanders. Þær kannanir sem RealClear Politics tók saman í febrúar sýna hins vegar aðeins rúmlega tveggja prósentustiga mun Clinton í hag þegar tæp vika var til forkosninganna.

Skekkjumörk kannananna í Nevada eru á þá leið að munurinn á milli þeirra er ekki marktækur. Það má því búast við spennandi forkosningum demókrataflokksins í Nevadaríki á laugardag.