Sanders og Trump sigruðu í New Hampshire

10.02.2016 - 02:39
epa05150549 Vermont Senator and US Democratic presidential candidate Bernie Sanders speaks at the event 'Commit to Vote Concert featuring Bernie Sanders' in Durham, New Hampshire, USA, 08 February 2016. The New Hampshire primary will be held on
 Mynd: EPA
epa05152046 (FILE) A file picture dated 08 February 2016 shows US Republican presidential candidate Donald Trump waving to supporters during a rally at the Verizon Wireless Center in Manchester, New Hampshire, USA. Billionaire businessman Donald Trump was
 Mynd: EPA
Bernie Sanders og Donald Trump unnu í kvöld sannfærandi sigur í forsetaefniskosningum stóru flokkanna tveggja vestanhafs, demókrata og repúblikana, sem fram fóru í New Hampshire. Útgönguspár og fyrstu tölur benda til þess að Sanders hafi fengið nær 60% atkvæða í forkosningum demókrata, en Hillary Clinton tæplega 40%. Þá lítur út fyrir að Trump hafi fengið vel ríflega tvöfalt fleiri atkvæði en næsti maður, John Kasich, eða 34% á móti 15,5%.

Clinton búin að óska Sanders til hamingju

Clinton hefur þegar sent Sanders heillaóskaskeyti. Sigur hans í New Hampshire þótti næsta öruggur, allar skoðanakannanir síðustu mánaða hafa sýnt hann með yfirburðastöðu í ríkinu og þær virðast hafa endurspeglað raunveruleikann nokkuð vel að þessu sinni. Clinton bar sigur úr býtum í fyrstu forkosningunum, sem fram fóru í Iowa í síðustu viku. Sigur hennar var þó mun naumari en kannanir og spár höfðu bent til og var reyndar eins naumur og hugsast gat; hún fékk aðeins 0,2% fleiri atkvæði en Sanders.

Trump aftur á sigurbraut

Donald Trump, sem tapaði nokkuð óvænt fyrir Ted Cruz í Iowa, gjörsigraði keppinauta sína í New Hampshire. Sem fyrr segir benda fyrstu tölur til að hann hafi fengið um 34% atkvæða. Kasich, sem er ríkisstjóri í Ohio og fékk afar lélega kosningu í Iowa, varð annar með 15,5%, Cruz náði þriðja sætinu með 11,8% atkvæða á bak við sig. Jeb Bush, sem komst vart á blað í Iowa, kemur fast á hæla honum með 11,5% og Marco Rubio, sem varð þriðji í Iowa, er fimmti í New Hampshire ef þessar tölur ganga eftir, með 10,5%. 

Engar líkur eru á því að hróflað verði við sigurvegurunum Sanders og Trump, og líklegt má telja að Kasich haldi öðru sætinu hjá repúblikönum. Hins vegar er svo mjótt á munum milli þeirra Cruz, Bush og Rubio, og svo mörg atkvæði enn ótalin, að röð þeirra gæti hæglega átt eftir að riðlast þegar líður á nóttina.   

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV