Sævar Helgi útskýrir tímamótauppgötvun

11.02.2016 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, segir að uppgötvun vísindamanna á þyngdarbylgjum sé staðfesting á snilli Alberts Einsteins, um 100 árum eftir að hann setti fram almennu afstæðiskenninguna.

Einstein spáði rétt

Almenna afstæðiskenning Einsteins spáði fyrir um þyngdarbylgjur. Sævar Helgi segir að þyngdarbylgjur séu eins konar gárur í tímarúminu, líkt og gárur á vatni. Ef einhverju þungu sé kastað ofan í vatn þá gárist það auðvitað. Vísindamennirnir hafi sennilega greint þyngdarbylgjurnar frá samruna tveggja svarthola, sem séu mjög massamikil, kannski 30 sinnum þyngri en sólin. Svartholin hafi runnið saman í eitt fyrir um 1,3 milljörðum ára, en bylgjurnar hafi fyrst nú náð til jarðar.

Eins og að fá heyrnina í frumskóginum

Sævar Helgi segir að þetta gefi nýja sýn á alheiminn. „Þetta opnar í raun og veru nýja vídd, nýja sýn á alheiminn algjörlega. Þetta er svolítið eins og það sé að bætast við skynfæri hjá okkur.“ Hann segir að hingað til hafi aðeins verið hægt að horfa á alheiminn í gegnum ljós, en nú megi segja að hægt sé að hlusta á hann líka. „Það ætti að kenna okkur ýmislegt nýtt um til dæmis svarthol og aðra mjög massamikla, þunga hluti, og gæti sömuleiðis kennt okkur eitthvað um grundvallareiginleika alheimsins, og til lengri tíma litið vonandi hvernig alheimurinn varð til við miklahvell“ segir Sævar Helgi.

Hann líkir þessu við að vera staddur í frumskógi og horfa í kringum sig. Þótt maður standi og horfi á trén allt um kring vanti samt heilmikið þangað til maður heyri í skordýrunum og öllum hinum furðuskepnunum sem eru hér og þar.

Eins og að kreista stressbolta

Sævar Helgi segir að þyngdarbylgjurnar sem voru mældar hafi skollið á jörðinni í haust. Segja megi að bylgjurnar bjagi tímarúmið, teygi það og togi allt í kringum okkur, sem hafi á endanum áhrif á jörðina sjálfina. Hann líkir áhrifum á jörðina við það að halda á stressbolta og kreista hann fram og til baka. „Þá sjáum við að hann skreppur aðeins saman og vex aftur og svo framvegis. Í raun og veru kom þetta fyrir jörðina þegar þyngdarbylgjurnar fóru í gegnum okkur, en breytingin sem varð af völdum þess er svo lítil hins vegar að við tækjum aldrei eftir því í daglegu lífi.“

Staðfesting á snilli Einsteins

Hann segir að mælingin sé prófsteinn á almennu afstæðiskenninguna í sterkasta þyngdarsviði sem vitað sé um, sem sé þyngdarkrafturinn í kringum svarthol. Þetta sýni að það megi alla vega treysta almennu afstæðiskenningunni í heimsfræðinni, sem snýst um skilning manna á uppruna, þróun og eðli alheimsins. „Þetta er í raun og veru staðfesting á snilld Einsteins, 100 eftir að hann setti kenninguna sína fram.“

Sævar Helgi segir að uppgötvunin hafi ekki miklar hagnýtar afleiðingar enn sem komið er. Byltingar á tilteknum sviðum vísindanna leiði þó stundum til þess að það breyti daglegu lífi fólks. „Afstæðiskenningin hefur svo sannarlega gert það, til dæmis í gegnum GPS-tæknina, og fleiri hluti sem Einstein spáði fyrir um eða skýrði fyrstur,“ segir Sævar Helgi. Það hafi til dæmis leitt til leysitækninnar.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV