RÚV: Vissar áhyggjur af Eurovision í Kænugarði

15.02.2017 - 16:16
Mynd með færslu
Jamala frá Úkraínu - henni er spáð góðu gengi í Eurovision í ár.  Mynd: Andres Putting  -  EBU
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir að þeir fylgist grannt með stöðu mála í Kænugarði og hafi vissar áhyggjur af tíðindum dagsins. BBC greindi frá því fyrr í dag að 21 starfsmaður í skipulagsteymi Eurovision-keppninnar hefði sagt upp störfum eftir að nýr yfirmaður tók til starfa.

Á vef BBC kemur fram að starfsmönnunum hafi verið haldið algerlega utan við alla ákvarðanatöku og að meðal þeirra sem hafi hætt séu tveir yfirframleiðendur.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps, bendir engu að síður á að bakland keppninnar sé afar traust. Forsvarsmenn hjá Eurovision séu nú eflaust farnir að skoða það alvarlega og meta hvort þörf sé á einhvers konar inngripi og þá hvernig því verði best háttað. „Hvort aðstoða eigi beint við undirbúning og skipulagningu keppninnar í Kænugarði eða hvort nauðsynlegt verða að færa hana. Sem fyrr segir þá munum við fylgjast grannt með næstu skrefum og verðum í sambandi við forsvarsmenn keppninnar til að kalla eftir frekari upplýsingum um stöðuna sem upp er komin.“

BBC segir að það því fylgi mikill kostnaður að halda Eurovision. Þannig hafi norska ríkisútvarpið, NRK, neyðst til að gefa frá sér HM í knattspyrnu árið 2010 vegna keppninnar. Talsverður vandræðagangur hefur verið í kringum keppnina í Úkraínu. 

Skipuleggjendur neyddust til að fresta því í þrígang að tilkynna hvar keppnin yrði haldin og starfsmennirnir 21 saka yfirmann sinn um að hunsa allar ráðleggingar þeirra. Fullyrt er á vef BBC að undirbúningurinn hafi tafist í tvo mánuði vegna hins nýja yfirmanns. Sjálft úrslitakvöldið verður 13. maí en forkeppnin hér á landi hefst 25. febrúar.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV