Ríkið verði að lækka kostnað sjúklinga

24.03.2016 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það gengur ekki upp að ætla að setja þak á kostnað sjúklinga af heilbrigðisþjónustu án þess að ætla að lækka heildarkostnað sjúklinga. Þetta segir formaður velferðarnefndar Alþingis. Ríkið verði að setja fjármuni í að lækka kostnað sjúklinga.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði á borgarafundi RÚV um heilbrigðismál á þriðjudag að hann ætli á næstu dögum að leggja fram frumvarp um þak á greiðslur sjúklinga. Byggt verður upp svipað kerfi og lyfjagreiðslukerfið, þannig að þeir sem fara sjaldan til læknis borga meira en nú er  en kostnaður þeirra sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda minnkar.

Álfheiður Ingadóttir var fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni sem kom með tillögur að breytingunum. Hún sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að núna beri sjúklingar tuttugu prósent af kostnaðinum við heilbrigðisþjónustu. Stjórnarandstaðan hafi viljað að ríkið tæki á sig stærri hluta kostnaðarins en forsendur nefndarvinnunnar hafi veri þær að heildarkostnaður sjúklinga yrði óbreyttur.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er formaður velferðarnefndar Alþingis. „Við verðum að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi og eigum að hafa þann metnað að vilja hafa gjaldfrjálsa þjónustu. Að innleiða svona kerfi án þess að ætla að draga úr heildarkostnaðinum gengur hreinlega ekki upp,“ segir Sigríður.

Fram kom í máli Álfheiðar að töluverður ágreiningur hefði verið í nefndinni. Í henni sátu bæði fulltrúar stjórnmálaflokkanna og heilbrigðisþjónustunnar. Deilt hefði verið um það hvort börn og ungmenni fengju ókeypis heilbrigðisþjónustu og hvort mæðravernd og fæðingarþjónusta ætti áfram vera fólki ókeypis sem og innlögn á spítala. 

„Í dag er hópur fólks að borga alltof mikið fyrir heilbrigðisþjónustu. Við drögum ekki úr því með því að láta óléttar konur fara að borga fyrir heilbrigðisþjónustu. Við höfum verið í fremstu röð varðandi lágan ungbarnadauða og mæðradauða og við förum ekki að ógna þeirri stöðu með þessu nýja kerfi. Það er alveg á hreinu. En það verður að draga úr greiðsluþátttöku fólks en það gerum við eingöngu með því að setja meiri pening inn í kerfið,“ segir Sigríður.