Rifsþélan gerir atlögu að almenningsbekk

14.07.2017 - 22:30
Mynd með færslu
 Mynd: Laufeybr
Mynd með færslu
 Mynd: Laufeybr
Mynd með færslu
 Mynd: Laufeybr
Mynd með færslu
 Mynd: Laufeybr
Mynd með færslu
 Mynd: Laufeybr
Lirfur rifsþélunnar eru „mikilvirk hraðvaxta átvögl.“ Þannig er þeim alla vega lýst á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hingað til hafa þær látið sér nægja að herja á rifsberjarunna og annan gróður í Reykjavík, en í dag sáu vegfarendur ekki betur en lirfurnar væru komnar saman svo tugum skipti til þess að tæta í sig almenningsbekk á Landakotstúni.

Á myndunum hér að ofan má sjá hvernig lirfurnar söfnuðust á bekkinn á Landakotstúni í dag.

Edda Sigurdís Oddsdóttir, forstöðumaður rannsóknarsviðs Skógræktarinnar, segist í samtali við fréttastofu ekki geta gefið einhlíta skýringu á þessu háttalagi dýranna.

„Hún hefur líklega ekkert að sækja á bekkinn. Líklegasta skýringin er að þarna nærri hafi verið annað hvort rifs- eða stikkilsberjarunni og hún hafi verið búin að éta þar allt upp,“ segir Edda og getur sér til um að þá hafi lirfurnar lagt af stað í leit að meira æti.

Ný tegund á Íslandi
Rifsþélan nam land á Íslandi fyrir nokkrum árum. Síðan þá hafa rifsberjarunnar víða í Reykjavík orðið fyrir barðinu á lirfum rifsþélunnar.

„Þetta er ný tegund og virðist vera að sækja í sig veðrið frekar en hitt,“ segir Edda. Rifsþélan hefur fundist á höfuðborgarsvæðinu og Mosfellsbæ, en skordýrin er ekki að finna alls staðar í þessum bæjarfélögum.

„Það er mismunandi hvar á höfuðborgarsvæðinu hún er, en þar sem hún kemur verður mjög mikið af henni,“ segir Edda.

Blaðlausir runnar
„Þar sem hún kemur upp getur hún verið heilmikill skaðvaldur. Hún er frekar lítil í byrjun, síðan verður hún mikið átvagl á mjög stuttum tíma. Það getur jafnvel hent að fólk bregði sér frá yfir helgi og runnar séu nánast blaðlausir þegar fólk kemur aftur,“ segir Edda.

Hún segir að það sé erfitt að losna við rifsþéluna og misjafnt hvaða aðferðir gefi góða raun hjá fólki. „Það sem hefur gefist best er að fylgjast vel með og fara í aðgerðir um leið og fólk sér hana pínulitla. Það er hægt að eitra eða bara tína hana af með höndunum og misjafnt hvað virkar,“ segir Edda.

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV