Rannsakar upplýsingaleka í Teslumáli Magnúsar

13.09.2017 - 10:44
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Ríkissaksóknari hefur falið lögreglustjóranum á Vesturlandi að rannsaka upplýsingaleka til DV í tengslum við rannsókn lögreglu og síðar héraðssaksóknara á meintum hraðakstri Magnúsar Ólafs Garðarssonar, stofnanda United Silicon. Ritstjóri DV, ábyrgðamaður DV.is og blaðamaður blaðsins hafa verið kallaðir til yfirheyrslu.

Kristjón Kormákur Guðjónsson, þáverandi ritstjóri DV og núverandi ritstjóri DV.is, staðfestir í samtali við fréttastofu að skýrsla hafi verið tekin af honum, Kolbrúnu Bergþórsdóttur, núverandi ritstjóra DV og Atla Má Gylfasyni, sem skrifaði fréttina um Magnús, í dag. Kristjón segir að lögreglumenn frá lögreglunni á Vesturlandi hafi komið á ritstjórnarskrifstofur blaðsins í Kringlunni til að taka skýrslurnar af starfsmönnunum þremur.

Magnús var fyrr í sumar ákærður fyrir almannahættubrot og líkamsárás af gáleysi á einum aflmesta rafbíl sem fluttur hefur verið til Íslands - Teslu S P85D. Honum var gefið að sök að hafa keyrt á allt að 183 kílómetra hraða við vondar aðstæður og á endanum valdið slysi. 

DV fjallaði um málið í mars en Magnús og lögmenn hans töldu ljóst að við umfjöllun blaðsins hefði blaðamaður þess haft óeðlilega greiðan aðgang að upplýsingum. Þær hefðu annaðhvort komið frá lögreglunni á Suðurnesjum, sem rannsakaði málið í fyrstu, eða frá héraðssaksóknara, sem rannsakaði það á síðari stigum.

Tesla-bílinn er nú í vörslu yfirvalda en saksóknari krefst þess að hann verði gerður upptækur vegna ítrekaðra og vítaverða brota Magnúsar. Hann hefur freistað þess að fá hann aftur í sínar hendur en án árangurs.

Magnús komst aftur í fréttirnar í vikunni þegar stjórn United Silicon kærði í gær hann til embættis héraðssaksóknara vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals. Magnús á að hafa dregið sér rúman hálfan milljarð allt frá stofnun verksmiðjunnar. Þá sagði fréttastofa frá því að Arion banki, sem er langstærsti eigandi United Silicon, íhugaði að kæra Magnús einnig.

Magnús sendi yfirlýsingu til fjölmiðla í gær þar sem hann sagði ásakanirnar vera bæði rangar og tilhæfulausar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV