Rangar stillingar orsökuðu straumleysi

11.01.2016 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Tæknileg vandamál í stillingum í stýribúnaði urðu til þess að varaflsstöð fór ekki í gang þegar rafmagnslínur rofnuðu í fárviðrinu þann 7. desember. Því var rafmagnslaust í um klukkustund í stað tveggja til þriggja mínútna, áður en varaaflsstöðin hrökk í gang.

Landsnet hefur sent frá sér tilkynningu þessa efnis. Þar segir að bilanagreining hafi leitt í ljós að töfina megi rekja til stillinga í varnarbúnaði. Þar sem stýribúnaður stöðvarinnar sé bæði nýr og tæknilega flókinn hafi tekið langan tíma fyrir sérfræðinga Landsnets, sem eru ekki staðsettir fyrir vestan, að ráða fram úr vandamálinu.

Í tilkynningunni segir jafnframt að mikið tjón hafi orðið á flutningskefi Landsnets í óveðrinu og ekki síst á Vestfjörðum. Varaaflstöðin er í eigu Landsnets en vélstjórar Orkubús Vestfjarða eru tengiliðir við stöðina í Bolungarvík. 

Varaaflstöðin í Bolungarvík var tekin í notkun í lok desember 2014 og kostaði á annan milljarð. Eftir fárviðrið í desember var varaflstöðin í notkun í tæpa viku og sá norðanverðum Vestfjörðum fyrir rafmagni, en hún gengur fyrir dísil. Í tilkynningunni segir að varaaflstöðin hafi gjörbreytt orkuöryggi íbúa á norðanverðum Vestfjörðum.