Rafvagnar á Friðriksbergi innan tveggja ára

08.08.2017 - 09:43
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Borgastjórn Kaupmannahafnar og yfirvöld á Friðriksbergi hafa gert samkomulag um að skipta út öllum dísilknúnum strætisvögnum og taka í notkun almenningsvagna sem knúnir eru með rafmagni. Byrjað verður að fjarlægja dísilbílana og taka í notkun umhverfisvænni vagna árið 2019.

Verið er að undirbúa útboð um gerð hleðslustöðva víðs vegar um Kaupmannahöfn þar sem rafgeymar vagnanna verða hlaðnir. Þá hafa sveitarfélög og héraðsstjórnir á Sjálandi og fleiri eyjum náð samkomulagi um að hætt verði að knýja almenningsvagna með dísilolíu og að umhverfisvænni bílar verði teknir í notkun fyrir árið 2030.

Yfirvöld í Kaupmannahöfn hafa þegar hafið aðgerðir til að draga úr skaðlegri loftmengun með því að setja í búnað í 300 dísilvagna sem dregur úr losun níturoxíðs.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV