Ráðast að síðasta vígi Íslamska ríkisins

20.08.2017 - 01:44
epa06080137 Iraqi soldiers hold up the Iraqi national flag in central Mosul, northern Iraq on 11 July 2017.  Iraqi Prime Minister Haider al-Abadi declared Mosul's liberation from Islamic state group Control (IS) after eight months of fierce fighting
Írakskir hermenn fagna sigri í Mósúl.  Mynd: EPA
Íraksher réðist í kvöld að Tal Afar, höfuðvígi hryðjuverkasveitanna sem kenna sig við Íslamskt ríki í norðurhluta Íraks. AFP hefur eftir ræðu Haiders al-Abadis, forsætisráðherra Íraks, að herinn ætli að frelsa svæðið undan vígamönnum. Vígamenn eiga tveggja kosta völ að hans sögn, að hverfa á brott eða deyja.

Tal Afar er um 60 kílómetrum vestur af Mósúl, næst stærstu borg Íraks. Vígi Íslamska ríkisins þar var brotið á bak aftur í síðasta mánuði eftir margra mánaða bardaga. Vígahreyfingin náði yfirráðum í Tal Afar í júní 2014. Borgin liggur á milli Mósúl og Sýrlands og því hernaðarlega mikilvæg til að koma vopnum og öðrum birgðum á milli. Borgin er eitt síðasta vígi samtakanna í norðurhluta Íraks.

Hashed al-Shaabi hersveitirnar berjast við hlið stjórnarhersins í aðgerðinni í Tal Afar að sögn al-Abadis. Hersveitin er skipuð síta-múslimum sem hafa barist við hlið Írakshers gegn vígamönnum.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV