Portúgal sigraði í Eurovision

13.05.2017 - 22:35
Portúgalinn Salvador Sobral heillaði Evrópu upp úr skónum í kvöld og fór með sigur af hólmi í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöða, með laginu „Amar Pelos Dois“. Í öðru sæti var Búlgaría og í því þriðja var nokkuð óvænt Moldavía. Þetta var fyrsti sigur Portúgals, sem þó hefur verið með í kepninni allt frá 1964, eða í 53 ár.

Portúgal var með rúmlega 100 stiga forskot á Búlgaríu þegar stig dómefnda höfðu verið tekin saman. Í kosningu almennings var Portúgal einnig með flest stig og tryggði sér því öruggan sigur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lokastaðan

Salvador talaði í þakkarræðu sinni um mikilvægi alvöru tónlistar. „Við búum í heimi einnota tónlistar án nokkurs innihalds. Ég held að þetta gæti verið sigur fyrir tónlistina og fólk sem býr til tónlist sem hefur einhverja raunverulega þýðingu. Tónlist er ekki flugeldasýning, tónlist snýst um tilfinningar. Við ættum að reyna að breyta þessu og endurheimta tónlistina, það er það sem skiptir máli.“

Það var systir Salvadors, Luísa Sobral, sem samdi „Amar Pelos Dois“. Þau systkinin komu saman upp á svið að taka við verðlaununum og sungu síðan saman sigurlagið.

Mynd með færslu
Atli Þór Ægisson
vefritstjórn