Persónuupplýsingar eru dýrmæt söluvara

15.07.2017 - 10:04
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Fjöldi mála sem Persónuvernd tekur fyrir hefur vaxið ár frá ári og hefur rúmlega þrefaldast frá því stofnunin var sett á fót um aldamótin. Starfsmönnum hefur hins vegar ekkert fjölgað. Forstjórinn segir að við stöndum á barmi fjórðu iðnbyltingarinnar þar sem gögn eru verðmætasta söluvaran.

Þetta kemur fram í nýútkominni ársskýrslu Persónuverndar. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í skýrslunni að á næsta ári taki gildi ný, evrópsk reglugerð um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem feli í sér einar mestu breytingar á reglum um persónuvernd í tvo áratugi. 

Reglugerðin fellur undir EES-samninginn og verður innleidd hérlendis. „Eitt helsta markmið hennar er að auka og styrkja réttindi einstaklinga þannig að þeir ákveði hverjir geti unnið persónuupplýsingar um sig, hvenær og í hvaða tilgangi,“ segir Helga. „Einstaklingum verður heimilt að leita til persónuverndarstofnana í því landi sem þeir búa, starfa eða þar sem ætlað brot fer fram,“ segir Helga.

Auður heimsins ekki olía heldur gögn

Helga bendir á að fjölmiðlar víða um heim fjalli í auknum mæli um persónuvernd. „Þannig bendir The Economist á í leiðara 10. maí sl. að helsti auður heimsins sé ekki lengur olía heldur gögn. Þar segir að fimm verðmætustu fyrirtæki heimsins séu gagnafyrirtækin Alphabet (móðurfyrirtæki Google), Amazon, Apple, Facebook og Microsoft,“ segir hún.

„Þessi fyrirtæki högnuðust um 25 milljarða bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017. Er því haldið fram í leiðaranum að Amazon nái til sín helmingi af öllum bandaríkjadölum sem eytt er á Netinu í Bandaríkjunum. Google og Facebook hirða síðan nær allan ágóðann af auglýsingum á Netinu. Hér þarf að hafa hugfast að hér er meðal annars um að ræða ágóða af sölu auglýsinga sem beint er til einstaklinga eftir að nethegðun þeirra hefur verið rýnd af til dæmis Google og Facebook og síðan seld þriðju aðilum eða notuð frekar af upphaflegum aðilum. Einstaklingar þurfa að gera sér grein fyrir að persónuupplýsingar eru dýrmæt söluvara – og meiri gögn búa til enn verðmætari vöru,“ bendirHelga á.

Hún segir jafnframt að verkefni Persónuverndar hafi sjaldan verið jafn krefjandi, mikilvæg og mikil að umfangi. „Enda stöndum við á barmi fjórðu iðnbyltingarinnar, þar sem tækniframfarir hafa gjörbylt allri vinnslu og meðferð persónuupplýsinga,“ segir Helga í skýrslunni.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir