Óttast víðtækar afleiðingar flytji HB Grandi

19.04.2017 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis óttast að ef HB Grandi flytur starfsemi frá Akranesi til Reykjavíkur, muni álíka dæmi koma upp annars staðar. Hann segir þetta stríða gegn anda  laga um stjórn fiskveiða og stjórnmálamenn verði að grípa til aðgerða til að tryggja þá stefnu.

 

Haraldur Benediktsson formaður fjárlaganefndar og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis segir að ef til þess komi að  HB Grandi flytji starfsemi frá Akranesi til Reykjavíkur sé það grundvallarbreyting í sínum huga. Fiskveiðistjórnunarkerfið byggist á þremur megin stoðum; sjálfbærum veiðum, hagkvæmni og byggðafestu. Því þurfi að taka byggðafestu þáttinn til endurskoðunar ef starfsemi HB Granda flyst, fyrirtækið megi ekki gleyma þessum þætti. Með flutningi sé komin upp allt önnur mynd en áður var.

„Það verður ekki endapunktur á hagræðingu þó að þessi aðgerð verði. Ég er að horfa á aðra staðið í Norðvesturkjördæmi, Snæfellsnes, Vestfirðina og Norðurland vestra ef við setjum ekki meiri festu í byggðafesti fyrir aflaheimildir þa fer illa fyrir okkur í þessu í þessu byggðalega og samfélagslega hlutverki þessara fyrirtækja. Stærri fyrirtæki hafa siðferðislega meiri skyldur til að standa við samfélagslega ábyrgð sína heldur en önnur,“ segir Haraldur. 

Hann segir að stjórnmálamenn þurfi að grípa til aðgerða og umræðu í þessu sambandi. Byggðalag eins og Vestmannaeyjar gæti staðið frammi fyrir svipuðum aðstæðum og Akranes, svo dæmi sé tekið, sem og önnur byggðalög víða um land. 

„Það er verið að taka einn stein úr vörðunni um sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið með svona framgöngu.“

Haraldur segist vilja gefa Akraneskaupstað og HB Granda frið til að ræða framhaldið og sjá svo til. Hann segir að andi laga um stjórnun fiskveiða að sveitarfélögin hafi einhver úrræði í þessum efnum, en framhjá slíku hafi verið komist með sölu hlutabréfa og þess háttar. 

„Löggjafinn þarf þá að slá í þá bresti þannig að það verði meiri festa í kerfinu þannig að byggðirnar hafi einhver úrræði með að halda í þessar heimildir,“ segir Haraldur Benediktsson.

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV