Óttast fjöldamorð á brasilískum frumbyggjum

13.09.2017 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Óttast er að allt að tíu íbúar afskekkts þjóðflokks í Amason-frumskóginum hafi verið myrtir af mönnum sem stunda ólöglega gullgröft í skóginum. Yfirvöld rannsaka málið og verður hópur rannsakenda sendur á svæðið.

Morðin eru sögð hafa verið framin í Javari-dalnum, við landamæri Brasilíu að Perú. Um fimmtungur þeirra þjóðflokka sem halda sig frá samskiptum við stjórnvöld er að finna þar, eða um 20 talsins. Þar eru menn að störfum fyrir ólöglega gullgrafara sem grisja ár á svæðinu. Rannsakenda bíður tólf daga bátsferð til að komast að vettvangi glæpsins. Reynist sögur af fjöldamorðunum réttar staðfesta þær grun margra um að umtalsverðar lækkanir á fjárframlögum hins opinbera til málefna frumbyggja ætti eftir að reynast þeim lífshættulegar.

Funai, stofnun sem heldur utan um málefni frumbyggja Brasilíu, hlaut nærri helmingi minna fjármagn frá hinu opinbera í ár en í fyrra. Þá hefur ríkisstjórn Michels Temers stefnt að því að minnka verndarsvæði Amason-frumskógarins og lagt fram áætlanir um námuvinnslur og verktöku á öðrum verndarsvæðum Brasilíu.

Funai sendi þriggja manna rannsóknarteymi til smábæjarins Sao Paulo de Olivenca eftir að hafa heyrt sögur af gullleitarmönnum sem hreyktu sér af því að hafa myrt átta til tíu frumbyggja þar nærri í byrjun ágúst. Eftir að hafa drepið þá hafi þeir hent þeir út í fljótið. Leila Sotto-Maior, stjórnandi við Funai, segir mjög erfitt að rannsaka svo gömul mál. Ef ekki hefði komið til lækkana frá hinu opinbera hefði enn verið hægt að hafa eftirlitsstöð nærri Javari-dal opna, segir Sotto-Maior enn fremur.

Guardian hefur eftir talsmanni brasilíska hersins að búnaður fjögurra ólöglegra gullleitarmanna hafi verið eyðilagður í kringum mánaðamótin. Gögn tveggja til viðbótar eru til skoðunar að sögn hersins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV