Óttast að ríkið breytist í flóttamannabúðir

Evrópusambandið hefur aldrei staðið frammi fyrir stærri áskorun. Aðildarlöndin virðast ekki geta komið sér saman um hvernig taka skuli á flóttamannavandanum. Þúsundir flóttamanna eru strandaglópar við landamæri Grikklands að Makedóníu og Grikkir óttast að landið breytist í flóttamannabúðir.

Hræringar í Austurríki

Angela Merkel ráðfærði sig hvorki við flokksfélaga sína né Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áður en hún lýsti því yfir að landamæri Þýskalands yrðu flóttamönnum opin. Kanslari Austurríkis fékk heldur ekkert um það að segja. Frá árinu 2014 hefur Austurríki tekið við miklum fjölda flóttamanna sem flýja stríðið í Sýrlandi. Enginn sér fyrir endann á stríðinu í Sýrlandi en staðan í Austurríki hefur hins vegar breyst.  Popúlistaflokkar hafa fengið aukin ítök og landamæreftirlit hefur verið tekið upp að nýju. 

Balkanríki á fund - Grikkir fengu ekkert fundarboð

Þann 24. febrúar boðuðu stjórnvöld í Austurríki níu Balkanríki á sinn fund með það að markmiði að draga verulega úr straumi flóttafólks upp Balkanskagann og til Austurríkis. Ríkin skrifuðu undir sameiginlega yfirlýsingu um að brýnt væri að hefta för fólks upp Balkanskagann bæði af öryggisástæðum og vegna þess að ríkin hefðu ekki burði til þess að taka á móti þeim.

Bara Írakar og Sýrlendingar og skilríkin mega ekki vera fölsuð

Ákveðið var að innleiða fjöldatakmarkanir frá og með föstudeginum 27. febrúar. Slóvenía, Króatía, Makedónía og Serbía hleypa nú að hámarki 580 flóttamönnum yfir landamærin á degi hverjum. Austurríkismenn hleypa 3200 flóttamönnum yfir landamærin á dag en þar af er 80 heimilt að sækja um alþjóðlega vernd. Einungis Sýrlendingum og Írökum er hleypt yfir landamæri Grikklands og Makedóníu og þess er krafist að þeir hafi gild skilríki. Ákvörðun ríkjanna hefur sætt mikilli gagnrýni, meðal annars af hálfu Bans ki-moons, aðalritara Sameinuðu þjóðanna sem segir hana brjóta gegn Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna, takmarkanirnar geri ríkjum ómögulegt að meta hvert tilfelli þar sem manneskja sækir um alþjóðlega vernd á einstaklingsgrundvelli. Talsmaður Bans segir að hann átti sig vel á alvarleika stöðunnar og álaginu sem flóttamannastraumurinn hefur í för með sér fyrir ríki Evrópu en að hann trúi því engu að síður að ríkin eigi að halda landamærunum opnum og hafa ábyrgð, samkennd og samvinnu að leiðarljósi.

Evrópusambandið brást

Filippi Grandi, yfirmaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir að lokun landamæra á Balkanskaga leiði sennilegast til frekari glundroða í Evrópu, fleiri flóttamenn muni reyna að smygla sér inn í sambandið. Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis, segir að ríkið hafi ekki átt annarra kosta völ en að taka ráðin í eigin hendur. Evrópusambandið hafi brugðist.

Fundurinn í Vín sýnir, eins allar vírgirðingarnar og landamæraeftirlitið, fram á vangetu Evrópusambandsins til þess að sannfæra aðildarríkin um að dreifa ábyrgðinni og vinna saman.

Ungverjar kjósa um Evrópuáætlun

Sama dag og Austurríki og Balkanþjóðir tóku ákvörðun um fjöldatakmarkanir tilkynnti Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, að hann hygðist boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um þáttöku Ungverjalands í sameiginlegri áætlun Evrópusambandsins um að dreifa 160 þúsund flóttamönnum um álfuna en stjórnvöld þar í landi hafa mótmælt áætluninni harðlega.

Judy Dempsey, pistlahöfundur hjá Carnegie Europe, evrópsku tímariti um utanríkismál, segir ekki ólíklegt að stjórnvöld í Slóvakíu, Póllandi og Tékklandi grípi til sama ráðs. Þau vilji lítið með flóttamenn hafa. Ef íbúar þessara ríkja leggjast gegn áætlunum Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu er líklegt að það veiki enn getu Evrópusambandsins til þess að stuðla að sameiginlegum aðgerðum aðildarríkja. 

 

epa05047748 German Chancellor Angela Merkel arrives for the start of an EU-Turkey Summit in Brussels, Belgium, 29 November 2015. The European Union hopes to secure Ankara's concrete help in stemming a surge in migration, at a joint summit in Brussels
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.  Mynd: EPA
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.

Næstu skref í höndum Merkel

Judy Dempsey heldur því fram að Merkel þurfi að taka ákvörðun um næstu skref Evrópusambandsins í málefnum flóttamanna. Hún geti með því að innleiða fjöldatakmarkanir létt byrðunum af Balkanríkjunum og Grikklandi. Þá gæti aukin aðstoð við þau ríki sem hýsa flesta flóttamenn; Líbanon, Tyrkland og Jórdaníu einnig skipt sköpum. 

Grikkir sátu eftir með sárt ennið

Austurríkismenn höfðu í aðdraganda fundarins í Vín hvorki samráð við Grikki né Þjóðverja. Fundurinn lagðist illa í grísk stjórnvöld. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklandsi, lýsti því yfir að Grikkland hefði ekki í hyggju að verða Líbanon Evrópu, það gilti einu þó að Evrópusambandið hygðist verja háum fjárhæðum til þess að reisa þar flóttamannabúðir. Utanríkisráðherra Grikkja, Nikos Kotzias, sagði þátttakendur á fundinum óvinveitta Grikkjum, teknar hafi verið ákvarðanir sem varða Grikkland, grísku landamærin og grísku þjóðina án þess að hún hefði nokkuð um það að segja. Gríska stjórnin hefur kallað sendiherra Grikklands heim frá Austurríki og lýst því yfir að Grikkir muni ekki samþykkja frekari samninga á vegum Evrópusambandsins, standi ekki til að létta byrðunum af þeim. Evrópusambandið geti ekki stungið höfðinu í sandinn og velt allri ábyrgðinni yfir á Grikki. Undir það tekur Angela Merkel, Þýskalandskanslari. Hún segir að Evrópusambandsríkin hafi ekki barist fyrir því að halda Grikklandi innan Evrusamstarfsins til þess eins að skilja þá eftir bjargarlausa núna.

Fjöldatakmarkanir koma ekki til greina

Merkel ver þó einnig áætlun sína um að halda þýsku landamærunum opnum, þrátt fyrir gagnrýni og fylgistap. Hún segir að fjöldatakmarkanir komi ekki til greina. Vandinn er að það er einmitt draumurinn um hæli í Þýskalandi sem laðar flesta til Grikklands. 

19. aldar stjórnarhættir

Grikkir hafa sakað Austurríkismenn um 19. aldar stjórnhætti og sagt þá skipa sér á bekk með harðlínuríkjum sem neita að taka við flóttamönnum; Ungverjalandi, Póllandi, Slóvakíu og Tékklandi. Þá væri hátterni þeirra til þess fallið að grafa undan tilraunum Evrópusambandsins til þess að finna sameiginlega, evrópska lausn. Stjórnvöld í Austurríki segja hins vegar ljóst að Grikkir geti ekki gætt ytri landamæra Schengen-svæðisins, því þurfi að auka eftirlitið við landamærin að Makedóníu. 

Táragas við makedónsku landamærin

Makedónska lögreglan beitti í morgun táragasi gegn hópi flóttamanna sem reyndi að komast í gegnum vírgirðinguna á landamærum Grikklands og Makedóníu.

Um sjöþúsund flóttamenn eru nú strandaglópar í bænum Idomeni, Grikklandsmegin landamæranna, og það bætist sífellt í hópinn. Það er kalt. Búðirnar í Idomeni eru fullar og tjaldbúðir hafa risið í grennd við þær, sumir sofa undir berum himni. Í frétt Al-jazeera kemur fram að matarbirgðir hjálparsamtaka á svæðinu séu á þrotum, útlit sé fyrir að neyðarástand skapist. 

Spennan er mikil og flóttamennirnir hafa mótmælt við landamærin, margir þeirra átta sig ekki á stöðunni. Því að það er ekki einungis við stjórnvöld í Makedóníu að sakast. Þau eru einungis hlekkur í keðju sem nær alla leiðina til Austurríkis. 

Óttast að landið fyllist af flóttamönnum

Yfir hundrað þúsund flóttamenn hafa komið til Grikklands það sem af er ári. Flestir hyggjast þeir sækja um hæli í Þýskalandi eða Austurríki. Nú eru 22 þúsund flóttamenn í Grikklandi, þar af eru sjö þúsund við landamærin að Makedóníu. Stefnt er að því að reyna að hýsa sem flesta á Kos, Lesbos og fleiri eyjum í Eyjahafi, sem jafnan eru fyrstu viðkomustaðir flóttamanna sem koma sjóleiðina frá Tyrklandi, uns greitt hefur verið úr vandanum á landamærunum. Yfirvöld í Grikklandi óttast að verði ekkert að gert á næstu vikum muni allt að 70 þúsund flóttamann sitja fastir innan Grikklands. Hætt er við því að Grikkir hafi hvorki efnahagslega né pólitíska burði til að sjá öllum þeim fjölda fyrir nauðþurftum. Þeir hafa ríka ástæðu til að óttast, daglega koma um 2000 flóttamenn sjóleiðina frá Tyrklandi, allir þessir flóttamenn stefna til Makedóníu og frá því á föstudaginn hafa Makedónar einungis hleypt 622 flóttamönnum yfir landamærin.

epa04968606 Refugees and migrants arrive at the island of Lesvos after crossing the Aegean see from Turkey, Greece, 08 October 2015. An estimated 100,000 refugees and migrants arrived on the Greek islands during August, according to the Hellenic Coast
Þúsundir manna hafa komið á bátum til Grikklands undanfarna mánuði.  Mynd: EPA  -  ANA-MPA
epa05055391 Migrants and refugees wait to cross the Greek borders in Idomeni village, northern Greece, heading to FYROM, 05 December 2015. Macedonian authorities allow only migrants from war-torn countries and heading for rich EU states to cross the
 Mynd: EPA  -  ANA-MPA

Veltur allt á samningnum við Tyrki

Það hversu margir koma til Grikklands á næstu vikum veltur að miklu leyti á því hversu vel Tyrkjum og NATÓ gengur að uppræta smyglstarfsemi í Tyrklandi og á Eyjahafi, gangi það vel er mögulegt að flóttafólk staldri í auknum mæli við í flóttamannabúðum í Tyrklandi. Það er sú lausn sem Evrópusambandið telur fýsilegasta. Leiðtogar Evrópusambandsins sömdu við Tyrki í nóvember í fyrra. Til stendur að Tyrkir uppræti smyglstarfsemi, herði landamæraeftirlit og búi flóttamönnum öruggt athvarf í flóttamannabúðum í Tyrklandi. Þannig verði komið í veg fyrir að þeir flýi til Evrópu. Í staðinn fá Tyrkir þrjá milljarða evra og loforð um að liðkað verði fyrir viðræðum um ferðafrelsi og aðild Tyrklands að Evrópusambandinu. Tyrkir halda því fram að fyrstu tvær vikurnar í febrúar hafi þeir komið í veg fyrir að 9250 flóttamenn sigldu til Grikklands og handtekið 300 smyglara. 

Áþreifanleg óeining

Óeiningin innan sambandsins hefur orðið nær áþreifanleg á síðustu vikum. Dimitris Avramopoulos, flóttamannaráðherra Evrópusambandsins, lýsti því yfir, á fundi innanríkisráðherra Evrópusambandsþjóða, Balkanþjóða og Tyrklands í Brussel í síðustu viku að áætlun Evrópusambandsins í málefnum flóttamanna stæði á brauðfótum. Hann sagði að ríkin hefðu tíu daga til þess að koma sér saman um áætlun annars væri úti um Schengen-samstarfið og sameiginlegu flóttamannastefnuna. Nú eru sex dagar til stefnu.

Fundað í Brussel - síðustu forvöð 

Leiðtogar Evrópusambandsríkja og Tyrklands hittast í Brussel þann 7. mars. Þá verða síðustu forvöð fyrir ríkin til þess að koma sér saman um viðbrögð við vandanum, alla vega við þeim vanda sem til staðar er í dag. Þegar vorar og öldurnar á Eyjahafi lægir er nefnilega viðbúið að þeim fjölgi verulega sem leggja upp í ferðina yfir hafið.

Framtíð Evrópusambandsins

Stefan Lehne, pistlahöfundur hjá tímaritinu Carnegie Europe telur að Evrópusambandið eigi eftir að verða sífellt losaralegra, verði ekki meiriháttar breyting á því hvernig þau nálgast flóttamannavandann. Hann segir vandann þann alvarlegasta í sögu sambandsins. Hann hafi borið sambandið ofurliði, stofnanalegir og lagalegir innviðir þess hafi ekki dugað til og það hafi komið í ljós að Schengen-samkomulagið hafi fyrst og fremst verið góðviðrissamkomulag, það þoli illa vind og vætu. Loks hefur vandinn dregið fram í dagsljósið djúpstæðan ágreining á meðal aðildarríkjanna. Vissulega voru ýmsar ákvarðanir teknar í fyrra en framkvæmdir ganga hægt og illa og sífellt koma fleiri flóttamenn til álfunnar.

Mikið pólitískt hitamál

 Lehne segir að sú spurning sem helst hljóti að brenna á Evrópubúum árið 2016 varði framtíð Evrópusambandsins. Sjálfur setur hann fram þrjár mögulegar sviðsmyndir um hvernig sambandið kann að þróast. Ástandið kallar á sameiginlegar aðgerðir en viðhorf aðildarríkja eru ólík og þau hafa ólíkra hagsmuna að gæta, þess vegna reynist þeim erfitt að sammælast um nálgun. Að auki eru innflytjendamál mikið pólitískt hitamál, bæði innan landa og milli þeirra, kannski er það þess vegna sem vandinn hefur verið svona yfirþyrmandi. 

Þrjár sviðsmyndir

Lehne telur að ef ekki tekst að finna sameiginlega lausn taki ekki við stöðnun heldur komi sambandið frekar til með að þróast í átt að frekari upplausn. Ef ekki tekst að dreifa ábyrgðinni og tryggja ytri landamærin taka ríkin málin í sínar hendur, það er óumflýjanlegt, segir hann.  Hann sér fyrir sér þrjár sviðsmyndir. 

1. Sameiginleg niðurstaða, sterkara samband

Í fyrsta lagi geta Evrópusambandsríkin komist að sameiginlegri niðurstöðu, sambandið styrkist þá fyrir vikið. Hann telur að til þess þyrfti að efla samstarf við þau ríki sem flóttamenn fara um á leið sinni til Evrópu og gera þeim kleift að sækja um hæli þaðan. Þannig mætti vinna gegn smyglstarfsemi. Þá þyrfti Evrópusambandið að herða sig í því að senda ólöglega innflytjendur aftur til síns heima. Það hvort þetta er raunhæft veldur á ýmsu, svo sem því hvort flóttamönnum fjölgar áfram og hver þróunin verður á sviði efnahagsmála og stjórnmála. Öryggismál skipta líka miklu, hryðjuverk gætu sett strik í reikninginn. Fyrst og fremst veltur þetta þó á því hvort aðildarríkin eru geta endurheimt traustið hvert á öðru og ráðið fram úr ágreiningsmálunum sem nú virðast nær óleysanleg. 

2. Áralangt samrunaferli fyrir bí

Í öðru lagi geta ríkin tekið málin í eigin hendur, sambandið kæmi þá til með að veikjast, Schengen-samstarfið myndi rakna upp og áralangt samrunaferli yrði fyrir bí. Nú þegar virðist sem virðing aðildarríkja fyrir stefnu Evrópusambandsins fari þverrandi. Lehne segir ljóst að ef ekki finnst lausn við flóttamannavandanum komi það til með að standa samruna á öðrum sviðum, svo sem orkumála og utanríkismála fyrir þrifum.  

3. Schengen-svæðið skreppur saman

Í þriðja lagi telur Lehne mögulegt að ákveðin kjarnaríki taki upp Schengen-samstarf sem yrði minna í sniðum. Forsætisráðherra Hollands lagði það til í fyrra að stofnað yrði „míní-Schengen“ sem Austurríki, Belgía, Þýskaland, Lúxemborg og Holland ættu aðild að. Tillagan var aldrei lögð formlega fram enda var henni fyrst og fremst ætlað að knýja önnur ríki álfunnar til samstarfs og samvinnu. Hugmyndin hvarf þó ekki, sumir telja æskilegt að Schengen-samstarfið væri minna og samanstæði einungis af kjarnaríkjum sem virða reglur þess og standa saman í gegnum súrt og sætt. Hugsanlega myndu einhver ríki fagna auknu frelsi en Lehne telur að á heildina litið myndi minnkun Schengen-svæðisins hafa slæm áhrif á Evrópusambandið, sumir myndu upplifa sig sem innanbúðarmenn en aðrir sem utangarðsmenn og það myndi hamla sambandinu.  

Evrópa kemur til með að breytast mikið

Lehne telur ljóst að lýðfræðileg samsetning Evrópu komi til með að breytast mikið á næstu árum. Það verði ekkert lát á fólksflutningunum. Áhrifin kunna  að verða bæði jákvæð og neikvæð, segir hann. Jákvæð fyrir hagvöxt og fjármögnun velferðarkerfisins til lengri tíma. Neikvæð ef fjölgun íbúa er svo hröð að það reynist erfitt fyrir nýja borgara að aðlagast, þeir komast ekki út í atvinnulífið eða þurfa að reiða sig á félagsþjónustu og fordómar innfæddra gagnvart þeim aukast.

 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi