Ósættið snúist um að komast í sjónvarpið

26.02.2016 - 17:26
Mynd með færslu
Menntaskólinn í Reykjavík varð í fyrsta sæti í fyrra.  Mynd: Saga Film  -  RÚV
Steinunn Ólína Hafliðadóttir, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema, segir að ákveðið hafi verið að ráðast í breytingar á fjármögnun Söngkeppni framhaldsskólanna því hún hafi undanfarin ár verið rekin með miklu tapi. Dvínandi áhugi virðist vera fyrir keppninni og það hafi reynst erfitt að fá fólk til að mæta á aðalkeppni.

Söngkeppnin hefur síðastliðin ár verið unnin í samstarfi á milli Saga Film og SÍF. Þegar skipulag á keppninni í ár hófst hafi Saga Film tjáð framkvæmdastjórn SÍF að Saga Film gæti ekki staðið undir kostnaði keppninnar ef hún kæmi ár eftir ár í milljóna króna mínus. Breytt fyrirkomulag keppninnar sé því niðurstaðan vegna óskar SÍF um að halda keppninni gangandi.  

„Síðustu fimm ár hafa verið sífelldar breytingar gerðar á keppninni til að gera hana sem sjálfbærasta. Því kemur hið breytta þátttökugjalda skipulag,“ segir Steinunn.  „30 skólar borga 40 þúsund krónur hver í þátttökugjald sem veitir aðgang að æfingahelgi í lok mars þar sem eru haldin ýmis námskeið. Tólf skólar komast áfram og þeir borga 30 þúsund hver.“

Steinunn segir að ætlunin hafi verið að halda keppnina í ár á Akureyri en það hafi reynst of stór biti. „Við reyndum til hins ítrasta að halda keppnina á Akureyri en það reyndist of dýrt að flytja allan búnað norður og borga fyrir upptökumenn og fleira. Þetta hefði kostað margar milljónir. Því var ákveðið að halda keppnina í Reykjavík.“

Sex skólar hafa dregið sig úr keppninni

Breytingarnar hafa lagst illa í framhaldsskóla á landsbyggðinni og hafa í dag sex þeirra dregið sig úr keppninni í ár. Þá hefur Menntaskólinn á Akureyri boðað eigin keppni fyrir norðan ásamt Verkmenntaskólanum á Akureyri og fleiri skólum sem einnig hafa dregið sig úr keppninni.

„Við óskum þeim velgengni og finnst leiðinlegt að þetta hafi orðið niðurstaðan því við höfum boðið þeim fjárhagsaðstoð við að koma til Reykjavíkur.“

Steinunn segir að mesta ósættið hafi ekki verið fjárhagslegs eðlis heldur vegna þess að aðeins 12 skólar kæmust í úrslitakeppnina í stað 30 í fyrra. „Þetta var gert til að auka áhuga á keppninni. Í fyrra voru allir 30 skólarnir í sjónvarpinu og keppnin var þriggja klukkutíma löng og lítil aðsókn.“

Steinunn segir að sett hafi verið á fót styrktarnefnd til að aðstoða minni skóla á landsbyggðinni að safna styrkjum fyrir þátttöku í keppninni. „Þegar við heyrum í formanni nemendafélaga í VMA og á Tröllaskaga og segjum þeim að við hörmum að þau hafi sagt sig úr keppni þá segja þau að fjármögnun hafi aldrei verið vandamál heldur væru skólarnir að draga sig úr keppni vegna þess að það væri ósanngjarnt að aðeins 12 skólar kæmust í sjónvarp. Ég talaði við formann nemendafélagsins á Tröllaskaga í dag og hann sagði að fjármögnun hafi aldrei verið vandamál.“

Steinunn segir að næstu helgi fari fram sambandsþing í hátíðarsal Háskólans á Akureyri. Þar standi til að taka fyrir málefni Söngkeppninnar. „Það skiptir mestu að efnilegir söngvarar fái tækifæri til að sýna og sanna hvað í þeim býr.“