Öryggi sjómanna ógnað með „drullumixi“

12.01.2016 - 16:25
Þrátt fyrir skýrar reglur, árlegt eftirlit og þá staðreynd að fjölda mannslífa hefur verið bjargað fyrir tilstilli gúmmíbjörgunarbáta eru mörg dæmi um að þannig sé gengið frá þeim um borð í íslenskum skipum að erfitt eða vonlaust gæti verið að nýta sér þá. Í Kastljósi í kvöld verður fjallað um málið og meðal annars birtar myndir sem sýna hvernig handlosunarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta hefur verið teipaður eða festur með plastsylgjum.
„Ég trúði því bara ekki að menn gerðu svona. Þetta er vítavert,“ segir útgerðarmaður sem uppgötvaði rúmum mánuði eftir að hann hafði keypt og hafið útgerð 15 tonna línubáts, að fyrri eigendur höfðu gengið þannig frá gúmmíbjörgunarbát línubátsins. Hér má sjá brot úr þætti kvöldsins, þar sem meðal annars er rætt við Hilmar Snorrason, skólastjóra Slysavarnarskóla sjómanna og nefndarmann í rannsóknarnefnd sjóslysa, sem Kastljós fékk til að skoða útbúnaðinn. Hann segir það alvarlega staðreynd að sjá að svona sé gengið frá öryggisbúnaði. Það sé alls ekki til þess fallið að auka öryggi sjómanna.
 
„Þetta er nú langt frá því að vera í lagi. Sem er auðvitað alveg fyrir neðan allar hellur. Menn eiga ekki að sætta sig við að öryggi þeirra sé ógnað með einhverju drullumixi“
 
Nánar verður fjallað um þessi mál í Kastljósi í kvöld.