Öryggi í Stjórnarráðshúsinu eflt

09.09.2015 - 12:04
Stjórnarráð Íslands við Lækjargötu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Forsætisráðuneytið óskar eftir 15 milljón króna framlagi í fjárlagafrumvarpinu til að efla öryggi í ráðuneytinu og Stjórnarráðshúsinu. Fram kemur í frumvarpinu að framlagið sé tilkomið vegna tillagna sem embætti ríkislögreglustjóra hafi lagt áherslu á að yrðu uppfylltar.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að ríkislögreglustjóri hafi metið að efla „þurfi öryggi, bæta búnað, tæki og öryggiskerfi,“ eins og það er orðað.

Þá segir enn fremur að með framlaginu sé stuðlað að föstu framlagi til öryggismála og að fyrir hendi verði fjárhagslegt svigrúm til að þróa, reka, viðhalda og endurnýja búnað og öryggistæki í samræmi við kröfur sem gerðar séu á því sviði.

Starfshópur um öryggismál æðstu stjórnar ríkisins var skipaður í janúar fyrir þremur árum. Honum var ætlað að bregðast við ábendingum sem komu fram í skýrslu ríkislögreglustjóra frá 30. september 2011 um öryggismál æðstu stjórnar.

Fram kemur í skýrslu almannavarna-og öryggismálaráðs, sem kom út í júní á þessu ári, að huga þurfi að öryggismálum æðstu stjórnar ríkisins. Þar með talin séu örugg samskipti hennar við umheiminn. „Sama á við um öryggi bygginga og upplýsingakerfa sem tilheyra æðstu stjórn.“

Æðsta stjórn eru forseti Íslands, ríkisstjórn, þingmenn og æðstu embættismenn ráðuneytis.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV