Orkuveitan biðst velvirðingar á skólpinu

17.07.2017 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: -  -  wilkimedia
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur biðst velverðingar á þeirri mengun sem orðið hefur vegna bilunar í skólpdælustöð við Faxaskjól og losunar óhreinsaðs skólps í sjó í tengslum við viðgerðir vegna hennar. Stjórnin telur að upplýsa hefði átt almenning jafnóðum um þá skólplosun sem átti sér stað við viðgerðirnar.

Þetta kemur fram í bókun aukafundar Orkuveitunnar sem haldinn var í dag vegna skólpmengunarmálsins. Stjórnin samþykkti bókunina samhljóða.

Fréttastofa greindi frá því 5. júlí að skólpdælustöð við Faxaskjól í Reykjavík væri biluð og fyrir vikið flæddu 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi á hverri sekúndu út í hafið, samtals mörg hundruð milljónir lítra.

Framkvæmdastjóri Veitna sagði fyrst í stað að fyrirtækinu hefði ekki borið að upplýsa almenning um skólpmengunina. Eftir að málið hafði verið til umræðu í fjölmiðlum sendu stjórnendur Veitna frá sér tilkynningu og báðust afsökunar á upplýsingaleysinu, í framhaldinu yrði upplýsingagjöf til almennings aukin þegar skólp fer í sjó við strendur.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur telur að skoða þurfi fráveitukerfi Veitna og virkni þess í samræmi við vaxandi umhverfiskröfur, ekki síst við þær aðstæður þegar bilanir koma upp eða álag verður óeðlilega mikið. Stjórnin lýsir ánægju með nýtt verklag Veitna varðandi samskipti við heilbrigðiseftirlit og aukna upplýsingagjöf til almennings. Að lokum kemur stjórnin þökkum á framfæri við starfsmenn Veitna, sem unnið hafa að viðgerðum og strandhreinsun í kringum skólphreinsistöðina.