Opið fyrir umferð að Sólheimajökli

03.10.2016 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson  -  RUV
Búið er að opna fyrir umferð upp að Sólheimajökli og sömuleiðis fyrir gönguferðir á jökulinn. Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi ákvað að virkja viðbragðsáætlun vegna eldgoss undir Mýrdalsjökli á óvissustig á föstudaginn. Óvissustigið er enn í gildi.

Nokkrir smáskjálftar voru í Mýrdalsjökli um helgina, sá stærsti á laugardaginn 2,7. Allir skjálftar í jöklinum eru nú undir tveimur stigum sem telst vera eðlileg bakgrunnsvirkni. Jarðhitavatn í ám hefur ekki aukist og einungis hækkað í þeim vegna úrkomu. Jarðskjálftahrina hófst þar um hádegið á fimmtudag og taldi vísindaráð líklegt að hún stafaði af kvikuhreyfingum í Kötlu. Engin merki voru þó um gosóróa.

Fundur Vísindaráðs Almannavarna hófst klukkan níu í morgun og hann stendur enn. Víðir Reynisson, lögreglufulltrúi á Suðurlandi, segir að óvissustig sé enn í gildi. „Það eru engar mælanlegar breytingar sem hafa áhrif á Sólheimajökulinn, menn eru meira að horfa á Múlakvíslina og Kötlu í heild sinni. Það var því ákveðið að aflétta þessari lokun. Sérfræðingar segja okkur að svona jarðskjálftahrina geti alveg dalað í smá tíma og tekið sig upp aftur og menn vilja því horfa til aðeins lengri tíma í því og þar sem að þessi lokun var eina aðgerðin sem var íþyngjandi þá afléttum við henni en höldum hinu áfram sem fyrst og fremst snýr að meiri vöktun og viðveru manna,“ segir Víðir.