Ólöf Nordal borin til grafar í dag

17.02.2017 - 10:54
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Ólöf Nordal, fyrrverandi innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verður borin til grafar í dag. Hún verður jarðsungin frá Dómkirkjunni klukkan 13. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í minningargrein í Morgunblaðinu að Ólöf hafi haft fágæta mannkosti: „Hlýja nærveru, skarpa sýn og viljann til að vinna að framförum fyrir landið okkar með fólki og fyrir fólk.“

Ólöf lést 8. febrúar eftir baráttu við krabbamein. Hún var fimmtíu ára. Eiginmaður hennar var Tómas Már Sigurðsson. Ólöf lætur eftir sig fjögur börn, Sigurð 25 ára, Jóhannes 22 ára, Herdísi 20 ára og Dóru 12 ára. Foreldrar Ólafar voru Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Dóra Guðjónsdóttir Nordal, píanóleikari og húsmóðir. 

Ólöf var þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Norðausturkjördæmi 2007 til 2009 og þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður 2009 til 2013 og síðan frá 2016. Hún var innanríkisráðherra 2014 til 2017.

Bjarni Benediktsson segir í minningargreininni að frá því að sjúkdómur Ólafar lét vita af sér að nýju, hafi hún sýnt magnað baráttuþrek, sigurvilja og mikið æðruleysi. „Í öllum viðtölum og framkomu var hún öllu því fólki stórkostleg fyrirmynd sem vill lifa lífinu og láta gott af sér leiða, þrátt fyrir glímu við sjúkdóm eða aðra erfiðleika.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir í minningargrein sinni að Ólöf hafi verið rökföst og ákveðin. „Hún naut því virðingar þvert á allar flokkslínur.“ Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að það hafi verið gaman og upplífgandi að vinna með Ólöfu. „Hún var alltaf vel að sér, ákveðin og með skýrar skoðanir en var einnig til í rökræður ef skoðanir voru skiptar.“

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV