Ökumaður reyndi að hlaupa undan lögreglu

21.04.2017 - 06:41
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Lögreglumenn ætluðu að stöðva bifreið við Heiðargerði í Reykjavík upp úr klukkan tvö í nótt en ökumaður reyndi að komast undan. Hann stöðvaði síðan bifreiðina og reyndi að hlaupa af vettvangi en var þá handtekinn. Farþegar í bifreiðinni náðu þó að komast undan.

Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, aka ökuréttindalaus, brot á vopnalögum og fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Hann var vistaður fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Afskipti höfð af tveimur konum í bifreið við Kópavogskirkju rétt fyrir klukkan eitt í nótt en talið var að konurnar væru að nota fíkniefni. Konurnar höfðu þá engin fíkniefni meðferðis en sögðust ekki með lykla af bifreiðinni. Lögreglumenn reyndu að hringja í skráðan eiganda bifreiðarinnar án árangurs. Skömmu síðar var tilkynnt um að bifreiðin væri stolin og þá voru aftur höfð afskipti af konunum þar sem þær voru staddar í Breiðholti. Konurnar voru handteknar grunaðar um nytjastuld bifreiðar og voru vistaðar í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins. 

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV