„og Ummarinn búinn að loka“

24.04.2017 - 13:05
Umferðarmiðstöðin, eða BSÍ, hefur staðið við Vatnsmýrarveg frá 1965 og oft verið skáldum yrkisefni í sögur og ljóð.

Auk þess að vera rútustöð þá var þar lengi vel eina sjoppa borgarinnar sem var opin á öllum tímum sólarhringsins, allt árið um kring, þannig að um helgar safnaðist þar saman fólk sem var að lyfta sér upp. Fyrir nokkrum áratugum síðan var komið með börn þangað á vorin og þau sett upp í rútur til að fara í sveit á sumrin, eins og venja var þá. Nú hefur staðurinn breytt um ásýnd og mest sést af túristum sem flæða í gegn í stríðum straumum.

Rútustöðvar eru á sinn hátt skáldlegar, þar er fólk að koma og fara, staður sem er fullur af ferðasögum og fyrirheitum um spennandi áfangastaði. Í smásögunni Snorratorrek eftir Böðvar Guðmundsson segir frá því þegar Snorri Sturluson birtist í nútímanum og kemur fyrst á Umferðarmiðstöðina. „Ek em maðr þorstafullr,“ segir hann við starfsstúlku BSÍ og klípur hana svo í rassinn eins og siður var að votta gengilbeinum hlýhug  þegar hann var uppi. Hún bregst hin versta við og slær hann utan undir með tusku, og telur forníslenskuna vera til marks um að maðurinn sé fullur Færeyingur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Það er á Umferðarmiðstöðinni sem að Andri í Andrabókum Péturs Gunnarssonar bíður þegar hann kemur úr sveitinni og enginn er kominn til að ná í hann. Óskar Árni Óskarsson má heita skáld Umferðarmiðstöðvarinnar. Hann hefur aldrei tekið bílpróf, fer í rútum um landið og skrifar um það sem ber fyrir augu. Í Röddum úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur er persóna sem kemur á BSÍ og borðar svið, drekkur tvær malt og þurrkar fituna í buxurnar eftir á. Inni í matsal Umferðarmiðstöðvarinnar situr síðan söguhetjan í Hvíldardögum Braga Ólafssonar og reykir sígarettu eftir að volvo-inn hans hefur gefið upp öndina. Hann hefur verið skikkaður í sumarfrí og veit ekki hvert skal stefna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hvíldardagar við borðið þar sem aðalpersóna bókarinnar sat og reykti og íhugaði hvert hún gæti farið í frí.

Umferðarmiðstöðin hefur líka verið staður næturfólks. Fólk kom þangað til að kaupa sígarettur og bland, samlokur með hangikjöti og baunasalati eftir að allt annað var búið að loka. Í ljóðabókinni Út um lensportið eftir Sigfús Bjartmarsson er staðurinn kallaður „Ummarinn“. Lýsingin í bókinni er býsna nákvæm á ástandinu þar í kringum 1980.

Leigubílarnir aka
fólkið týnist burt
yfir ruslið og slabbið
fáeinir krakkar úr stuði
og þreyttir menn og feitar konur
af eldri sortinni
andlitin eins og klæðnaðurinn
svolítið hjárænulegt í morgunbirtunni
og ummarinn er að loka

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lúgusjoppan á BSÍ í kringum 1980 þegar fólk safnaðist þar saman eftir gleði næturinnar.

Planið fyrir fram Ummarann var eiginlega eini staðurinn þar sem var eitthvað líf á nóttunni eftir lokun skemmtistaða. Það var kjaftað og gólað og sungið, slegist og spyrnt á köggum, menn og konur slöguðu um haugdrukkin. En nú fyrir skömmu var lúgusjoppunni, þar sem allt þetta fjör skapaðist, lokað. Hún tilheyrir fortíð sem er liðin, því nú eru opnar búðir alla nóttina úti um allan bæ.

Mergjaða fylliríslýsingu af Ummaranum er að finna í Kvikasilfri eftir Einar Kárason: „Allir horfðu á mannfíflið, útmigið, korrandi og hræðilegt, og vonuðu að bráðum kæmi löggan eða öskubíllinn og hirtu þetta hræ. Allir á Umferðamiðstöðinni hugsuðu það sama og vonuðu það sama nema Bárður Kiljan. Hann einn horfði á þetta allt, dreyminn og hrifinn í framan eins og leiðslu, og loks þegar einkennisklæddir lögregluþjónar komu, og leiddu riðandi manngarminn út sneri pabbi sér að mér og sagði: „Það vildi ég að guð gæfi að ég væri svona fullur.““

Frægasta persónan sem tengist Umferðarmiðstöðinni er líklega Erlendur í sögum Arnalds Indriðasonar. Það er á BSÍ sem Erlendur kaupir sviðakjammana sem honum finnst svo góðir og sjá mátti einnig í kvikmyndaútgáfunni af Mýrinni þar sem Ingvar E. Sigurðsson fer með aðalhlutverkið. Erlendur hefur þjóðlegan matarsmekk sem er kannski ein ástæðan fyrir því að hann er svona vinsæll. Sagt er að hugmyndin að sviðunum hafi komið frá Kristjóni Kristjónssyni forstjóri BSÍ, sem var faðir Braga bóksala og blaðakonunnar Jóhönnu Kristjónsdóttur.

Egill Helgason fjallaði sögu Umferðamiðstöðvarinnar og bókmenntir sem henni tengjast í Kiljunni. Hægt er að horfa á innslagið í heild sinni í spilaranum að ofan.

Egill Helgason
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Vefritstjórn
Kiljan