Óbreytt aðstaða við Seljalandsfoss í sumar?

19.01.2016 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óvíst er hvort eða hversu mikið næst að lagfæra aðstöðu við Seljalandsfoss fyrir sumarið. Vegna mikillar umferðar við fossinn horfði til vandræða síðastliðið sumar. Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur samþykkt lýsingu á breytingum á aðalskipulagi. Breytingarnar verður nú kynntar almenningi, fjallað frekar um hana í sveitarstjórn og tillaga síðan send til umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila.

„Auðvitað stefnum við að því að lagfæra aðstöðuna í sumar, koma fyrir nýjum bílastæðum og hafa gjaldskyldu á þeim. En við eigum erfitt með að gera mikið fyrr en breyting á aðalskipulagi er gengin í gegn“, segir Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Rangárþings eystra. Ætla má að kynning fyrir almenningi og umfjöllun sveitarstjórnar geti lokið í mars. Síðan fer málið áfram til Skipulagsstofnunar og fleiri. Landið undir skipulaginu er í eigu fjögurra aðila og breytingar á veginum koma í hlut Vegagerðarinnar. „Vegagerðin hefur tekið afar vel í þetta mál“, segir Ísólfur Gylfi.

Skipulagið er fyrir svæðið í kringum Seljalandsfoss, nágrannafossinn Gljúfrabúa og gamla bæinn í Hamragörðum. Í tillögunni er gert ráð fyrir bílastæðum fyrir 150 einkabíla og 15 fólksflutningabíla á aurnum fyrir vestan núverandi veg í Þórsmörk. Þar er og nóg rými til að bæta við stæðin ef þarf. Gert er ráð fyrir að vegurinn færist vestur fyrir stæðin og fylgi varnargarðinum við Markarfljót. Í tillögunni sé gert ráð fyrir þjónustumiðstöð við Seljalandsfoss og breyttum og bættum gönguleiðum að báðum fossum og Hamragörðum.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV