Nýnasistar hraktir af leið í Berlín

20.08.2017 - 01:32
epa06151094 Supportes of far-right wing and neo-Nazi organisationsdisplay a banner reading 'Ich bereue nichts' (I regret nothing) during a demonstration commemorating the 30th death anniversary Rudolf Hess in the district of Spandau in Berlin,
 Mynd: EPA
Um eitt þúsund manns stóðu í vegi nýnasista í Berlín í dag, þar sem þeir hugðust ganga að fangelsinu í Spandau og minnast Rudolf Hess. Hess fyrirfór sér í fangelsinu fyrir 30 árum. Fjölmennt lið óeirðarlögreglu hélt nýnasistunum og mótmælendum þeirra aðskildum.

Um 500 nýnasistar gengu um götur Berlínar í dag til að minnast Hess, sem var háttsettur í stjórnartíð Adolfs Hitlers. Eftir tæplega kílómetra göngu neyddust þeir til að snúa við þar sem mótmælahópur hafði lokað leiðum að fangelsinu. Að sögn Guardian voru nýnasistarnir víða að, frá mörgum borgum Þýskalands og nágrannaríkjum. Þeir héldu sem leið lá að lestarstöðinni í Spandau þar sem haldnar voru ræður. Mótmælendur þeirra hrópuðu og kölluðu yfir ræðurnar og hvöttu nýnasistanna til að halda heim á leið.

Settar voru talsverðar kröfur á nýnasistanna til þess að þeir mættu ganga um götur Berlínar. Þeim var meinað að upphefja Hess eða nasistastjórnina, þeir máttu ekki bera vopn, trommur eða kyndla og máttu aðeins hafa einn fána á hverja 25 þátttakendur.

Öfugt við mótmælin í Charlottesville í Bandaríkjunum síðustu helgi hefði lögregla látið til sín taka ef einhver nýnasistanna hefði mætt í fullum vígbúnaði eins og nokkrir gerðu þar. Eins hefði lögregla gripið inn í ef heyrst hefðu hróp gegn gyðingum. Þá þurftu nýnasistarnir að fara í gegnum lögregluleit áður en þeir héldu af stað í göngu sína. Þeir voru færðir inn í tjald þar sem lögregla leitaði vopna, ólöglegra fána eða húðflúra sem sýna tákn á borð við hakakrossinn, en þau eru bönnuð í Þýskalandi. Fjöldi kom út úr tjaldinu með svört límbönd límd yfir hendur og fætur.

Rudolf Hess hlaut lífstíðardóm í Nürnberg-réttarhöldunum fyrir sinn hlut í síðari heimsstyrjöldinni. Hann sat í fangelsi allt þar til hann lést 17. ágúst 1987. Yfirvöld úrskurðuðu að hann hafi svipti sig lífi, en nýnasistar saka stjórnvöld um að hylma yfir morðið á honum og halda árlega í göngu til heiðurs honum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV