Nóróveirusýkingin í rénun

11.08.2017 - 17:07
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
Sýkingin sem lagðist á skáta á Úlfljótsvatni í gær er hefðbundin magapest af ætt nóróveira. Þetta hefur greining á sýnum sem tekin voru leitt í ljós. Samkvæmt tilkynningu á vef Lögreglunnar á Suðurlandi virðist sýkingin vera í rénun og voru sex veikir skömmu fyrir klukkan fimm í dag. 63 veiktust af þeim 181 sem fluttur var af skátasvæðinu við Úlfljótsvatn í fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum í Hveragerði.

Þegar er farið að útskrifa þá sem ekki veiktust. Skátahreyfingin og Rauði krossinn ætla að aðstoða það fólk við að koma sér fyrir því aðstaðan á Últfljótsvatni er enn lokuð. Hugsanlega verður búið að tæma fjöldahjálparstöðina í kvöld, ef vel gengur.

Undirbúningur kennara við Grunnskóla Hveragerðis fyrir komandi vetur á að hefjast á mánudag. Undirbúningur að þrifum og sótthreinsun fjöldahjálparstöðvarinnar í skólanum er hafinn og vonir standa til að undirbúningur kennara raskist sem minnst.

Á fundi aðgerðastjórnar síðdegis kom fram að nóróveiran sé hefðbundin magapest, það sem kalla mætti heimilismagapest. Henni hefði fylgt magakveisa.