Nikolaj: Keyrði ekki burt með Birnu

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Nikolaj Olsen, sem var um skeið í gæsluvarðhaldi vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur, segist ekki geta sagt til um hvort hún hafi verið í bíl með sér og Thomasi Møller Ol­sen nóttina sem hún hvarf. Hann sagðist við skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjaness í dag að hann myndi lítið eftir atburðum. Nikolaj efaðist um hann hafi keyrt burt á rauða bílnum með Birnu eins og Thomas hélt fram í morgun. Nikolaj sagðist aldrei hafa farið í ökuskóla og að hann hefði lent í slysi hefði hann reynt að keyra bíl.

Thomas Møller Ol­sen, sem ákærður er fyrir morðið á Birnu, sagði í morgun að stúlkan sem hefði verið með þeim Nikolaj í bíl hefði horfið sér sjónum þegar Nikolaj og hún fóru tvö í burtu á bílnum. Sjálfur hefði hann orðið eftir og ekki séð hana aftur. Hann sagði líka að það hefði verið Nicolaj en ekki hann sjálfur sem hefði sagt söguna um að tvær stelpur hefðu verið í bílnum.

Thomas horfði ekki á Nikolaj þegar hann gekk í dómsalinn heldur sneri sér undan.

Áfengisdauður á barnum

Nikolaj sagðist ekki muna mikið frá föstudagskvöldinu og aðfaranótt laugardags þegar Birna hvarf. Hann hefði fengið far með Thomasi og öðrum skipverja í bæinn. Þeir hefðu fyrst farið á English Pub en síðan á American Bar þangað sem ekki átti að hleypa honum inn í fyrstu, ekki fyrr en Thomas sótti hann. „Ég man ekki mikið eftir því sem gerðist þar inni. Ég var svo fullur að ég var áfengisdauður.“

Nikolaj sagðist hafa viljað fara heim þegar þeir fóru af barnum en að Thomas hafi viljað fara í bíltúr. Fyrr í dag lýsti Thomas atburðum með allt öðrum hætti, að hann hefði viljað fara aftur í skipið en að Nikolaj hefði viljað skoða bæinn.

Birna kom inn í bíl mannanna á Laugavegi. Nikolaj sagðist muna eftir að stelpa hefði komið inn í bílinn en svo hefði hann sofnað. Nikolaj sagði að Thomas hefði vakið sig þegar þeir komu niður á höfn og Nikolaj þá farið um borð í skipið. 

Getur ekki fullyrt að stelpan hafi verið Birna

Nikolaj sagðist lítið muna frá nóttinni, aðeins að stelpa hefði komið inn í bílinn á Laugavegi. Hann sagðist ekki geta fullyrt að það hefði verið Birna Brjánsdóttir.

Thomas sagði í morgun að Nikolaj hefði verið í samskiptum við stelpuna í bílnum og eiga með henni stund í einrúmi. Þetta sagðist Nikolaj efast um. „Ég snerti hana ekki.“

Of fullur til að keyra bíl

Í skýrslugjöf sinni í morgun sagði Thomas að Nikolaj hefði keyrt burt á bílnum, með Birnu. Þessu vísaði Nikolaj á bug og sagðist ekki mega keyra þar sem hann hefði aldrei farið í ökuskóla. Hann sagði að hann hefði munað eftir því ef hann keyrði bíl um nóttina. „Ég efast um að ég hafi getað keyrt bílinn og efast um að ég hafi getað talað við hana því ég sofnaði í bílnum. Ef ég hefði keyrt bílinn svona fullur þá hefði ég sennilega lent í slysi.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Bara ein stelpa í bílnum

Fyrst eftir að hann var handtekinn sagði Nikolaj að tvær stelpur hefðu verið í bílnum. Hann sagði í dómsal í morgun að það hefði rifjast upp fyrir sér meðan hann sat í einangrun að það hefði bara verið ein stelpa í bílnum. Hann kannaðist ekki við neina ælulykt í bílnum og sagði Thomas ekkert hafa minnst á slíkt.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, spurði Nikolaj út í ferðir þeirra um nóttina. Hann sagðist ekki viss um hvort mynd af manni fyrir utan Bæjarins bestu væri af sér. Nikolaj sagðist heldur ekki viss um hvort hann hefði verið í úlpu um nóttina en sagðist muna að þeir hefðu farið úr úlpunum og skilið þær eftir í bílnum þegar þeir fóru á American Bar.

Nikolaj sagðist lítið muna eftir bílferðinni úr Reykjavík inn í Hafnarfjörð. Hann sagðist ekki muna hvort hann hafi sofið alla leiðina en heldur að svo hafi verið. Hann efaðist líka um að einhver annar en Thomas hafi keyrt bílinn.

Páll Rúnar sýndi myndskeið úr öryggismyndavélum þar sem sást til bílsins og inn í hann. Hann spurði Nikolaj út í myndirnar en Nikolaj gat lítil svör veitt. Dómari tók fram í fyrir Páli og sagði vitnið þegar hafa sagt að það munni lítið eftir bíltúrnum vegna ölvunar. Dómarinn sagði verjanda kominn of langt í sönnunarfærslum.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV

Lögreglan öskraði okkur í fyrstu

Nikolaj sagði við skýrslutöku að hann hefði farið á fætur um klukkan ellefu á laugardeginum og þá sagt skipstjóranum frá fylleríinu. 

Lögreglan gekk hart fram og öskraði á okkur, sagði Nikolaj þegar hann lýsti fyrstu yfirheyrslunum. Seinni yfirheyrslur hefðu ekki verið með þeim hætti. Nikolaj sagðist ekki hafa viljað leyna neinu við yfirheyrslurnar, hann hafi einfaldlega verið mjög fullur og ekki munað mikið. „Það gæti vel verið að eitthvað hafi verið mistúlkað.“

Páll vitnað í yfirheyrslur lögreglu yfir Nikolaj þar sem verjandi hans hefði lýst áhyggjum sínum yfir því að Nikolaj væri að reyna að þóknast lögreglunni og hugsanlega farinn að geta í eyður. „Reyndirðu einhvern tímann að geta í eyðurnar?“ spurði Páll. Nikolaj sagðist hafa reynt að muna sem mest.

Skýrslutöku yfir Nikolaj lauk upp úr klukkan hálfeitt, um hálftíma eftir að upphaflega var gert ráð fyrir lokum hennar. Hlé hefur verið gert á aðalmeðferðinni til klukkan hálf tvö.