Naut banaði nautabana

18.06.2017 - 01:26
epa05972921 Spanish bullfighter Ivan Fandino fights with his first bull of the evening during the San Isidro bullfighting fair at the Las Ventas bullring in Madrid, Spain, 18 May 2017.  EPA/JP GANDUL
Fandino í kröppum dansi í Madríd í maí síðastliðnum.  Mynd: EPA
Einn af þekktari nautabönum Spánar, Ivan Fandino, lést af sárum sínum í Suður-Frakklandi í dag. Fandino hnaut á vellinum þegar hann steig í skikkjufald sinn og bolinn notaði tækifærið, setti undir sig hornin og rak hann á hol. Gat kom á lunga Fandinos, sem var fluttur á sjúkrahús í skyndi. Samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar fékk nautabaninn tvö hjartaáföll á leiðinni á sjúkrahúsið, þar sem hann lést skömmu síðar.

Fandino var Baski, 36 ára að aldri, og tók þátt í Aire-sur-l'Adour- nautaatshátíðinni í Frakklandi ásamt kollegum sínum Juan Del Alamo og Thomas Dufau. Fyrr um daginn hafði hann drepið eitt naut og skorið af því eyrað, svo sem hefðin mælir fyrir um. Starfsbróðir og landi Fandinos, hinn 29 ára gamli Victor Barrio, dó í júlí í fyrra þegar bolinn sem hann hugðist bana rak hann á hol, og sömu örlög fékk hinn 64 ára gamli mexíkóski nautabani, El Pana, nokkrum vikum fyrr. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV