Nauðsynlegt að auka vitund allra um mansal

14.09.2017 - 17:15
Knut Bråttvik yfirlögregluþjónn í Noregi, sem fæst við mansalsmál, segir mikilvægt að þekking fólks um mansal verði aukin. Allir verðir að leggja sitt af mörkum til að uppræta þessa glæpastarfsemi.

Flest fórnarlömb frá Rúmeníu

Mansal er vaxandi vandamál í Vestur-Evrópu og reyndar um allan heim. Starfsgreinasambandið, lögreglan og Reykjavíkurborg efndu í dag til mansalsráðstefnu sem bar yfirskriftina Þrælahald nútímans. Í erindi Roberts Crepinko yfirmanns mansalsmála hjá Evrópulögreglunni kom fram að stærstur hluti mansalsmála í Evrópu tengdist vændi eða um 78 af hundraði. 17% tengjast vinnumansali, 3% betli, þinguðum hjónaböndum, glæpum og ættleiðingum. Flest fórnarlömbin koma frá Rúmeníu eða um 45%. Næst er Búlgaría með 14%. 9% koma frá Nígeríu og 8% frá Ungverjalandi.

Knut Bråttvik, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóraembættinu í Noregi, sem er með mansalsmál á sínu borði, segir að mansal sé vandamál í öllum löndum og Noregur sé ekki undantekning. 2016 var tekið á málum 262 fórnarlamba mansals í Noregi. Stærstur hluti fórnarlambanna eru konur en um 18% karlar, sem tengjast frekar vinnumansali.

Þetta er stór hópur og við erum ekki nógu dugleg að greina og finna fórnarlömbin og hjálpa þeim. 

46 dómar frá 2005

Hann segir að í Noregi sé þó gott skipulag þegar kemur að því að hjálpa fórnarlömbum og vernda þau. Þeim eru útvegaðar íbúðir og fá framfærslueyri í einhvern tíma til að þau geti aðstoðað við rannsókn mála. Frá því að lög um viðbrögð gegn mansali tóku gildi 2005 hafa verið kveðnir upp 46 dómar yfir mansalsglæpamönnum og á þessu ári voru kveðnir upp tveir dómar í Hæstarétti. Hann segir að þetta séu erfið sakamál. Þetta snúist ekki um t.d. 10 grömm af hassi eða rán heldur fjalli þetta um manneskjur. Fórnarlömbin séu oft ekki fús til að tjá sig.

Fórnarlömbin vilja ekki tjá sig og eru hrædd við að tjá sig. Þeim hefur verið hótað til að þegja og hafa verið hrædd með því að segja að lögreglan sé hættuleg því hún handtaki þau og vísi þeim úr landi. 
 

Hann segir að Noregur sé áfangaland fyrir þá sem stunda mansal. Áhersla sé nú lögð að aukna samvinnu við þau lönd sem fórnarlömbin koma frá. Gagnlegt sé að fá mynd af því bæði hvernig glæpamennirnir ná til fórnarlambanna í viðkomandi landi og hvernig staðið er að flutningi þeirra.

Allir verða að leggja sitt af mörkum

Knut vitnar í erindi Roberts Crepinko frá Evrópulögreglunni sem ítrekaði að baráttan gegn mansali kalli á samvinnu á milli landa og að lönd geti lært hvert af öðru. Knut leggur áherslu á að allir axli ábyrgð þegar kemur að mansali. Hann segir að það eigi að sjálfsögðu við um lögreglu en líka um almenning og starfsmenn fyrirtækja.

Allir eiga að taka þátt. Allir geta lagt eitthvað af mörkum. Enginn getur séð allt en margir geta séð eitthvað.
 

Hann segir að þetta eigi við um fyrirtæki og t.d. starfsmenn á flugvöllum sem geta tilkynnt ef þeir verða varir við fornarlömb mansals. Hann bendir á að Evrópuráðið hafi sagt mansali stríð á hendur. Það nái ekki aðeins til lögreglunnar heldur landanna í heild. Öll lönd eigi að vera með aðgerðaáætlanir gegn mansali.  

 Í aðgerðaáætlun okkar í Noregi er kveðið á um að það þurfi að auka vitund almennings um mansal.

Hann segir að mikilvægt sé að leggja áherslu á ungt fólk. Grunnskólar og háskólar geti gegnt mikilvægu hlutverki við að upplýsa um hvað felist í mansali og hvað einkenni fórnarlömbin.

Hvað einkennir fórnarlömbin, hvert er hægt að hringja og til hverra getur þú komið upplýsingum á framfæri? 

Hann bendir á að lögreglan sé með síðu á netinu þar sem hægt er að koma á framfæri upplýsingum, meðal annars um mansal.

Fara þangað sem peningar eru

Hann segir að glæpamenn eða glæpahringir sem stundi mansal skipuleggi starfsemina út frá því hvar peninga er að finna.

Þessir glæpamenn eru klárir og hreyfanlegir. Þeir skipuleggja sig út frá því hvar peningarnir eru.

Mikilvægt sé að löndin séu í stakk búin að hindra eða koma í veg fyrir að þessi glæpamenn geti athafnað sig og að starfsemi þeirra aukist. Það verði til þess að þeir einbeiti sér að öðrum löndum. En ef öll lönd sameinast í baráttunni gegn mansali verður erfitt fyrir þá að reka þessa glæpastarfsemi. Markmiðið sé að glæpamönnum verði gert erfitt fyrir að stunda mansal.

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV